KA lagði Aftureldingu og leiðir 1-0

Blak
KA lagði Aftureldingu og leiðir 1-0
Ævarr fyrirliði gerði 7 stig í kvöld

Í kvöld hófst einvígi KA og Aftureldingar í undanúrslitum úrslitakeppni Mizunodeildarinnar í blaki. KA hampaði Deildarmeistaratitlinum í vetur og hefur því heimaleikjarétt í einvíginu.

Gestirnir úr Mosfellsbænum hófu leikinn af miklum krafti og náðu mest fjögurra stiga forskoti. En KA liðið er feiknasterkt og þegar menn náðu loks áttum í stöðunni 5-9 þá var leikurinn fljótur að snúast og breytti liðið stöðunni yfir í 14-11. Strákarnir héldu forystunni út hrinuna og unnu að lokum 25-20.

Í annarri hrinu var spilamennska okkar liðs jafnari og var í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn í hrinunni myndi enda. Lokatölur 25-18 og KA í lykilstöðu að klára leikinn.

Afturelding með bakið upp við vegg og spyrnti kröftuglega frá sér í þriðju hrinunni. Staðan var 10-16 fyrir gestina og fór um marga á pöllunum en þá kom magnaður kafli hjá okkar liði og breyttu þeir stöðunni yfir í 20-18 og loks 23-19. Afturelding reyndi hvað þeir gátu til að jafna metin en það tókst ekki og lauk hrinunni með 25-23 sigri KA og því 3-0 sigur staðreynd.

Deildar- og Bikarmeistarar KA hefja því úrslitakeppnina með sigri en ljóst er að þrátt fyrir góðan 3-0 sigur í dag þá er þetta einvígi galopið enda Afturelding með flott lið með Piotr Kempisty í broddi fylkingar sem við KA menn þekkjum ansi vel.

Næsti leikur í einvíginu er á laugardaginn klukkan 14:00 að Varmá og verður hann í beinni á SportTV.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is