KA sigraði Þrótt Nes öðru sinni

Blak

Í fyrri leik liðanna vantaði Þrótt Nes nokkra lykilmanna þeirra vegna meiðsla en þeir voru allir mættir aftur til leiks svo búast mátti við hörkuleik.

Bæði lið byrjuðu leikinn af krafti en KA menn voru alltaf einu skrefi á undan. Munurinn var þrjú stig í stöðunni 20-17 en þá skoruðu KA fjögur stig í röð. Fyrstu hrinunni lauk með 25-18 sigri KA.

Þróttarar byrjuðu aðra hrinuna betur en þá fyrstu og leiddu til að byrja með. KA skoruðu fjögur stig í röð í stöðunni 5-5 og komust Þróttarar ekki aftur inn í hrinuna. KA juku forskot sitt hægt og þétt og unnu hrinuna 25-15 og því komnir í góða stöðu.

Þriðja hrinan var gríðarlega spennandi þar sem hvorugt liðið gat slitið sig frá hinu. Frá stöðunni 1-3 fyrir Þrótti og þar til staðan var 21-23 fyrir Þrótti munaði aldrei meira en einu stigi á liðunum. Þá fengu KA menn þrjú stig í röð, þar af tvö vegna mistaka Þróttar. Hrinunni lauk ekki fyrr en í upphækkun þar sem Mason Casner skoraði síðustu tvö stigin fyrir KA, það fyrra úr sókn og það síðasta beint úr uppgjöf. Hrinunni lauk með 27-25 sigri KA og leiknum því 3-0.

Hjá KA var Quentin Moore stigahæstur með 21 stig og hjá Þrótti skoraði Miguel Mateo Castrillo 23.

KA situr sem áður á toppi Mizunodeildarinnar með 25 stig eftir 10 leiki, 7 stigum á undan HK en hefur leikið einum fleiri leik. Þróttur Nes er í fjórða sæti deildarinnar með 8 stig eftir 10 leiki, 7 stigum á eftir Stjörnunni og 2 stigum á undan Aftureldingu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is