KA lagði Aftureldingu og leiðir 2-1

Blak
KA lagði Aftureldingu og leiðir 2-1
Mason Casner skorar stig fyrir KA

Deildar- og Bikarmeistarar KA í blaki unnu í kvöld góðan 3-1 sigur á Aftureldingu í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Mizunodeildarinnar. KA hefur þar með unnið báða heimaleiki sína og leiðir 2-1 en þrjá sigra þarf til að komast áfram í úrslitin.

Afturelding hefur komið af miklum krafti inn í úrslitakeppnina og sló út Stjörnuna áður en kom að einvíginu við KA. Spilamennska Aftureldingar í síðasta leik kom mörgum á óvart og unnu þeir sannfærandi 3-1 sigur. Það var því töluverð pressa á KA liðinu að koma til baka og halda forystunni í einvíginu.

Fyrsta hrinan var frekar sveiflukennd en gestirnir komust í 0-3, KA svaraði í 3-3, aftur gáfu gestirnir í og komust í 3-7. Aftur komu okkar menn þó til baka og komust yfir 10-9. KA liðið leiddi eftir það og vann að lokum hrinuna 25-22.

En Mosfellingar byrjuðu þá næstu af gríðarlegum krafti og gerðu í raun útum hana straxeftir að þeir komust í 4-12. KA liðið reyndi hvað það gat að koma til baka en munurinn var einfaldlega of mikill og jöfnuðu gestirnir 1-1 með 18-25 sigri.

Þetta virtist kveikja í okkar mönnum og byrjuðu þeir þriðju hrinu vel og komust í 10-5 og 13-8. Enn voru sveiflur í leiknum og Mosfellingar minnkuðu muninn í 13-12, spennan í algleymingi. Aftur kviknaði gott líf í okkar liði og KA keyrði yfir gestina og vannst hrinan 25-17.

Fjórða hrinan var svo hnífjöfn og jafnt á flestum tölum. En eins og svo oft áður í vetur þá reyndist KA liðið sterkara þegar hvað mest er undir og kláraði liðið hrinuna 25-21 og þar með leikinn 3-1.

Quentin Moore var stigahæstur í KA með 18 stig og Ævarr Freyr Birgisson gerði 14. Fín frammistaða og draumurinn um að vinna alla bikara tímabilsins lifir enn góðu lífi.

Næsti leikur liðanna er þó eftir töluverðan tíma en hann fer fram 4. apríl og það að Varmá í Mosfellsveit.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is