Dramatískt jafntefli í Krikanum

Fótbolti
Dramatískt jafntefli í Krikanum
Grímsi í baráttunni í gær (mynd: Jóhannes Long)

KA sótti Íslandsmeistara FH heim í 2. umferð Pepsi-deildarinnar í gær og lauk leiknum með fjörugu 2-2 jafntefli þar sem KA jafnaði metin á síðustu andartökum leiksins.

FH 2 - 2 KA

0 - 1 Hallgrímur Mar Steingrímsson (22’) Stoðsending: Emil Lyng
1 - 1 Steven Lennon (36’)
2 - 1 Kristján Flóki Finnbogason (60’)
2 - 2 Ásgeir Sigurgeirsson (94’) Stoðsending: Hallgrímur Mar

Lið KA:

Rajko, Bjarki Þór, Guðmann, Callum, Darko, Aleksandar, Almarr, Ásgeir, Emil, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Dagur, Baldvin, Ólafur Aron, Steinþór Freyr, Ívar Örn, Daníel og Bjarni.

Skiptingar:

Emil út – Steinþór Freyr inn (62’)
Bjarki Þór út – Ólafur Aron inn (83’)
Steinþór Freyr út – Daníel inn (83’)

KA liðið hóf leikinn gegn Íslandsmeisturunum af miklum krafti og hélt liðið boltanum vel og pressaði heimamenn stíft þegar að liðið missti boltann. Það var hrein unun að fylgjast með liðinu fyrstu 30 mínúturnar og greinilegt að leikplan liðsins gekk upp.

Eftir rúmar tuttugu mínútur var brotið á Emil Lyng rétt fyrir utan vítateig FH-inga eftir sendingu frá Darko. Hallgrímur Mar tók spyrnuna og skrúfaði boltann yfir varnarvegg FH og Gunnar Nielsen markvörð FH sem var þó í boltanum. KA því komið verðskuldað yfir 0-1.

Eftir markið virtust heimamenn ná áttum og sóttu meira að marki KA en fyrsta hálftímann hafði ekkert reynt á vörn KA og Rajko þar sem KA var miklu meira með boltann og þéttir aftur.

Það var hins vegar á 36. mínútu sem Skotinn knái Steven Lennon skoraði afbragðs mark eftir sendingu utan af kannti frá Halldóri Orra. Lennon lagði boltann snyrtilega fyrir sig utarlega í vítateignum og hamraði boltan upp í hægra hornið. Óverjandi fyrir Rajko. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Í síðari hálfeik voru FH-ingar sprækari til að byrja með og náðu þeir að komast yfir á 60. mínútu þegar að Kristján Flóki skallaði aukaspyrnu Böðvars Böðvarssonar í netið af nærstöngininni.

Eftir markið sást það greinilega á leik KA liðsins að liðið ætlaði sér ekki að fara stigalausir úr Kaplakrika. Túfa breytti um leikkerfi. Fækkaði í vörninni og jók sóknarþungan og skilaði sú breyting árangri.

Eftir þó nokkra pressu á mark Íslandsmeistaranna á lokamínútunum fengu KA hornspyrnu á 94. mínútu. Hana tók Hallgrímur Mar og var spyrnan fullkominn, beint á hausinn á Ásgeiri sem jafnaði metin fyrir KA með flautumarki. Frábær endir á góðum leik sem KA liðið spilaði frábærlega og var jafntefli vægast sagt sanngjörn úrslit. Mjög góð liðsframmistaða sem skilaði þessu stigi á einum erfiðasta útivelli landsins.

KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (Var stórkostlegur. Frábært aukaspyrnumark í fyrri hálfleik og með lúxus hornspyrnu á lokasekúndunni teiknaða á kollinn á Ásgeiri. Byrjar mótið mjög vel með 3 stoðsendingar og mark í fyrstu tveimur leikjum. )

Næsti leikur KA er á sunnudaginn næstkomandi þegar að fyrsti heimaleikur KA í eftstu deild í 13 ár verður spilaður á Akureyrarvelli. Þá koma Fjölnismenn í heimsókn og hefst leikurinn kl. 18:00. Við hvetjum alla KA-menn að fjölmenna í gulu og styðja liðið og taka þátt í fjörinu. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is