Fyrsti sigur KA í Grindavík í 11 ár!

Fótbolti
Fyrsti sigur KA í Grindavík í 11 ár!
Ásgeir skoraði fyrsta markið í dag (mynd: Þ.Tr)

Það var búist við hörkuleik í Grindavík í dag eins og venja er þegar KA og Grindavík mætast en liðin hafa eldað grátt silfur á síðustu árum. Fyrir leikinn í dag hafði KA ekki unnið í Grindavík frá árinu 2007 og voru strákarnir staðráðnir í að breyta því.

Grindavík 1 - 2 KA
1-0 Alexander Veigar Þórarinsson ('8)
1-1 Ásgeir Sigurgeirsson ('31)
1-2 Ýmir Már Geirsson ('92)

KA liðið hóf leikinn af miklum krafti, heimamenn komust ekkert fram völlinn og strákarnir áttu nokkrar hættulegar tilraunir. Hrannar Björn Steingrímsson átti fast skot fyrir utan teig sem Kristijan Jajalo varði vel og skömmu síðar átti Daníel Hafsteinsson skalla yfir markið.

Það var því hrikalega svekkjandi þegar fyrsta markið kom á hinum enda vallarins en Alexander Veigar Þórarinsson skoraði eftir langt innkast á 8. mínútu og var það í fyrsta skiptið sem heimamenn höfðu komist nálægt teig okkar liðs.

Áfram héldu strákarnir að pressa heimamenn og greinilegt að þeir ætluðu ekki að láta markið taka sig útaf laginu. Elfar Árni Aðalsteinsson fékk úrvalsfæri eftir frábæran undirbúning hjá Daníel en skot hans var framhjá. Bjarni Mark Antonsson átti svo hornspyrnu sem endaði í þverslánni og Elfar Árni rétt missti af boltanum í kjölfarið.

Markið lá í loftinu og það kom á 31. mínútu þegar Ásgeir Sigurgeirsson skallaði boltann laglega í netið eftir flotta aukaspyrnu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni. Áfram var mikið líf í leiknum út hálfleikinn en fleiri urðu mörkin ekki og staðan því 1-1 eftir mjög flotta spilamennsku.

Í upphafi síðari hálfleiks átti sér svo stað eitthvert furðulegasta atvik sem ég hef upplifað. Jajalo í marki Grindavíkur átti hörmulega spyrnu frá markinu sem fór beint á Elfar Árna sem tók vel á móti boltanum og renndi honum í netið. KA liðið fagnaði ógurlega enda ákaflega mikilvægt mark og heimamenn gengu svekktir í átt að miðjunni til að hefja leikinn á ný. Þá allt í einu ákveður Helgi Mikael dómari leiksins að dæma markið af og Grindavík fær aukaspyrnu. Atvikið var endursýnt í gríð og erg í sjónvarpi og alls ekki hægt að sjá hvað gæti verið ólöglegt við markið, dómurinn sem og atburðarrásin til skammar.

Algjört áfall en KA liðið sýndi mikinn karakter að ná að koma sér aftur í gírinn og halda áfram að þjarma að heimamönnum. Ásgeir fékk úrvalsfæri á 65. mínútu en Jajalo gerði virkilega vel að verja frá honum. Stuttu síðar komust Grindvíkingar í skyndisókn og Sito brunaði að markinu og var við það að skjóta þegar Milan Joksimovic gerði virkilega vel í að tækla boltann í burtu.

Marinó Axel Helgason fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt er hann braut á Milan, KA manni fleiri og rétt tæpar 20 mínútur eftir af leiknum. Fyrir utan Sito virtist vera sem heimamenn væru sáttir með stigið og í kjölfar spjaldsins lögðu þeir enn meira í að verjast sóknum okkar liðs.

KA gekk erfiðlega að skapa sér færi og leit allt út fyrir að leikurinn myndi enda með jafntefli. Það var því vægast sagt sætt þegar Ýmir Már Geirsson sem hafði komið inn sem varamaður þrumaði boltanum í netið eftir laglega sendingu frá Elfari Árna og vá hvað þetta mark átti skilið að vera sigurmark leiksins!

Virkilega góð frammistaða hjá liðinu og alveg ótrúlega sterkt að liðið klári leikinn þrátt fyrir að löglegt mark hafi verið dæmt af liðinu, líka frábært fyrir dómarapar leiksins að KA hafi á endanum fengið sigurinn. Niðurstaðan því þrjú stig og KA er komið með 15 stig í deildinni eftir 12 leiki. Það er allt annað að sjá til strákanna frá upphafi sumars og ekki spurning að liðið mun halda áfram að hala inn stigum í komandi leikjum!

Nivea KA-maður leiksins: Elfar Árni Aðalsteinsson (Margir frábærir í dag en Elfar Árni var magnaður í dag, síógnandi, pressaði varnarmenn Grindavíkur vel, skoraði frábært mark sem reyndist svo ekki telja og lagði upp markið sem tryggði stigin þrjú.)


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is