Knattspyrnumaður ársins 2016 hjá KA er Guðmann Þórisson

Fótbolti

Guðmann er fæddur árið 1987 og leikur sem miðvörður. Hann er uppalinn hjá Breiðablik en fór út sem atvinnumaður til Noregs árið 2010. Hann sneri til baka til Íslands og gekk í raðir FH árið 2012. Þar lék hann til ársins 2014 þegar hann fór aftur út í atvinnumennskuna og lék í Svíþjóð, nánar tiltekið með Mjälby. Hann lék síðan með meistaraliði FH í fyrrasumar.

Guðmann hafði fyrir seinasta tímabil samtals leikið 114 leiki í deild og bikar á Íslandi og skorað í þeim 10 mörk. Með KA í sumar bætti hann við 18 leikjum í sarpinn auk 2 marka. Hann hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með FH og einnig varð hann bikarmeistari með Breiðablik árið 2009.Guðmann kom til KA á lánssamningi frá FH rétt fyrir upphaf keppnistímabilsins í apríl á þessu ári og má með sanni segja að hann hafi átt einn stærsta þáttinn í því að lið KA sigraði Inkasso deildina með talsverðum yfirburðum og náði að tryggja sér sæti í deild hinna bestu eftir 12 ára fjarveru þar. Hann var einn af 6 leikmönnum KA sem kosnir voru í Inkasso lið ársins sem valið var af fótbolta.net, en Guðmann fékk einmitt fullt hús stiga í þeirri kosningu. Guðmann er sannur leiðtogi á velli sem og utan hans. Guðmann hefur nú gert samning við KA og verður leikmaður KA næstu tvö árin a.m.k. Guðmann var ásamt Srdjan  Rajkovich valinn besti leikmaður meistaraflokks KA á árinu af leikmönnum og stjórn knd. KA.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is