Þór/KA áfram eftir markalaust jafntefli

Fótbolti
Þór/KA áfram eftir markalaust jafntefli
Frábær árangur hjá Þór/KA! (mynd: Þ.Tr)

Íslandsmeistarar Þórs/KA gerðu sér lítið fyrir og tryggðu sér sæti í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir markalaust jafntefli gegn Ajax í lokaleik riðlakeppninnar. Fyrir leik var ljóst að stelpurnar þurftu sigur til að vinna riðilinn og eiga öruggt sæti í næstu umferð. Það tókst ekki en tvö af bestu liðunum í 2. sæti komust einnig áfram og stelpurnar voru þar á meðal.

Þór/KA 0 - 0 Ajax

Stelpurnar hófu leikinn af krafti og fékk Arna Sif Ásgrímsdóttir úrvals skallafæri í upphafi en því miður fór skallinn rétt framhjá. Þær Hulda Ósk Jónsdóttir og Sandra Mayor reyndu í kjölfarið fyrir sér en stelpunum gekk illa að hitta á markið.

Þær Hollensku náðu svo góðum kafla og pressuðu en Þór/KA er þekkt fyrir góðan varnarleik og þær lokuðu býsna vel á sóknaraðgerðir Ajax. Ekki var skorað í fyrri hálfleik en þó greinilegt að bæði lið ætluðu sér sigur í leiknum og spennandi síðari hálfleikur framundan.

Spennan var í algleymingi í þeim síðari þrátt fyrir að ekki hafi verið mikið um opin færi, þess í stað einkenndist leikurinn af baráttu og hörku. Þór/KA varð fyrir áfalli á 78. mínútu þegar Ariana Calderon fékk sitt annað gula spjald. Mikil óánægja var með dóminn en lið Ajax hafði verið að liggja mikið eftir að því er virtist til að fiska gul spjöld á okkar lið.

Þrátt fyrir að vera manni færri út leikinn spiluðu stelpurnar áfram vel og agað og lokuðu áfram vel á hið sterka lið Ajax. Leikurinn því markalaus og Ajax fagnaði sigri í riðlinum og sæti í 32-liða úrslitum. Það gerðu okkar stelpur hinsvegar einnig því að stigið var nóg til að tryggja annað af auka sætunum fyrir tvö af þeim liðum með bestan árangur í 2. sæti í riðlunum tíu.

Það er ljóst að árangurinn er glæsilegur en stelpurnar fengu ekki á sig mark í riðlinum og óskum við liðinu og öllum sem að því koma hjartanlega til hamingju. Andstæðingarnir í næstu umferð verða ákaflega erfiðir og gaman að sjá hverjir það verða þegar dregið hefur verið í 32-liða úrslitin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is