Þór/KA áfram með fullt hús stiga

Fótbolti
Þór/KA áfram með fullt hús stiga
Það virðist fátt geta stöðvað Þór/KA (mynd: Þ.Tr.)

Sigurför Íslandsmeistara Þórs/KA heldur áfram í Pepsi deild kvenna en í dag vann liðið 0-2 útisigur á Bikarmeisturum ÍBV í Vestmannaeyjum. Liðinu var spáð Íslandsmeistaratitlinum fyrir sumarið og það lítur ekki út fyrir að sú pressa sé að hafa einhver áhrif á þetta magnaða lið.

ÍBV 1 - 2 Þór/KA
0-1 Ariana Catrina Calderon ('33)
0-2 Sandra María Jessen ('38)
1-2 Kristín Erna Sigurlásdóttir ('83)

Það var búist við hörkuleik enda bæði lið vel mönnuð og fyrri leikir liðanna hafa verið jafnir og skemmtilegir. Heimastúlkur komu sér í gott færi snemma leiks þegar Cloé Lacasse komst í gegn en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir gerði vel í að loka á hana en Bryndís hafði fyrir leikinn ekki enn fengið á sig mark frá því hún kom aftur til liðs við Þór/KA.

Á 33. mínútu kom svo fyrsta markið þegar Sandra Mayor þrumaði að marki beint úr aukaspyrnu, Emily Joan í marki ÍBV reyndi hvað hún gat til að verja skotið en boltinn endaði í slánni og svo rak Ariana Catrina Calderon smiðshöggið með því að koma boltanum yfir línuna og Þór/KA komið í forystu.

Skömmu síðar tvöfaldaði Sandra María Jessen forystuna með laglegu skallamarki eftir góða fyrirgjöf frá Önnu Rakel Pétursdóttur. Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik og staðan því 0-2 sem voru einmitt sömu tölur og þegar liðin mættust síðast í eyjum. Þá komu ÍBV stelpur til baka og unnu 3-2 en það var ljóst að það átti ekki að endurtaka sig í dag.

ÍBV reyndi hvað það gat til að minnka muninn í síðari hálfleik og stjórnuðu þær ferðinni á löngum köflum en þeim gekk illa að ná góðu skoti á markið. Það stefndi því allt í þægilegan sigur Þórs/KA en það þarf oft ekki mikið til að breyta hlutunum í fótbolta og á 83. mínútu minnkuðu Eyjastúlkur muninn þegar Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði eftir magnaðan undirbúning Cloé Lacasse.

Gríðarleg spenna var því á lokamínútum leiksins en heimastúlkur þjörmuðu að okkar liði og reyndu allt hvað þær gátu til að jafna metin. En varnarleikur og skipulag Þórs/KA er til fyrirmyndar og þrátt fyrir ágætar tilraunir tókst ÍBV ekki að jafna og virkilega sterkur 1-2 útisigur staðreynd. Sandra María heldur áfram að raða inn mörkunum en hún er komin með 5 mörk í fyrstu þremur leikjunum!

Stelpurnar eru því með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar og líta mjög vel út þrátt fyrir þá pressu sem var á liðinu fyrir sumarið þar sem flestir spáðu þeim Íslandsmeistaratitlinum. Næsti leikur er heimaleikur gegn KR 23. maí og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta og styðja þetta frábæra lið okkar, áfram Þór/KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is