Þór/KA lagði ÍBV og heldur toppsætinu

Fótbolti
Þór/KA lagði ÍBV og heldur toppsætinu
Stelpurnar eru á miklu skriði!

Kvennalið Þórs/KA tók í dag á móti liði ÍBV í 6. umferð Pepsi deildarinnar. Eins og við mátti búast var leikurinn fjörugur og spennandi en Þór/KA landaði á endanum sigrinum og er áfram á toppnum með fullt hús stiga.

Þór/KA 3 - 1 ÍBV
1-0 Hulda Ósk Jónsdóttir ('17)
1-1 Sigríður Lára Garðarsdóttir ('37, víti)
2-1 Sandra Mayor ('81)
3-1 Sandra María Jessen ('86)

Bæði lið hófu leikinn af krafti og var nokkuð ljóst að hér myndu bæði lið leika til sigurs. Fyrsta markið kom á 17. mínútu eftir flottan einleik hjá Sandra Mayor þar sem hún fór illa með vörn gestanna og kom boltanum á endanum fyrir markið þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir kom honum í netið.

Áfram var töluvert líf í leiknum og lið ÍBV var staðráðið í að koma sér aftur í leikinn. Það tókst á 37. mínútu þegar Zaneta Wyne átti misheppnaða tæklingu í vörn Þórs/KA og vítaspyrna dæmd. Sigríður Lára Garðarsdóttir skoraði af öryggi og staðan því orðin 1-1 sem voru hálfleikstölur.

Halldór Jón, Donni, þjálfari var greinilega á því að breytinga væri þörf enda leikurinn hnífjafn og skipti því Söndru Maríu Jessen inn á í hléinu. Það plan virkaði klárlega og Þór/KA náði betra taki á leiknum þó svo að gestirnir væru áfram hættulegir.

Það var farið að fara um suma á Þórsvellinum en Sandra Mayor sló alfarið á það með flottu marki eftir hornspyrnu á 81. mínútu. Markið loksins komið og flott stemning á pöllunum.

En stelpurnar voru ekki á þeim buxunum að verja bara forskotið og á 86. mínútu tvöfaldaði Sandra María Jessen forystuna með frábæru skallamarki. Natalia Gomez tók aukaspyrnu og Sandra María kláraði færið af stakri snilld og gerði þar með útum leikinn með sínu fyrsta marki í sumar.

3-1 sigur staðreynd og lið Þór/KA heldur áfram á magnaðri sigurbraut. Liðið er eitt á toppnum eftir 6 umferðir og virðist ekkert ætla að slaka á og eru til alls líklegar í sumar, áfram Þór/KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is