Þór/KA tekur á móti Val

Fótbolti
Þór/KA tekur á móti Val
Rakel, Sandra og Andrea fagna marki gegn Val.

Laugardaginn kl. 19:00 í Boganum tekur Þór/KA á móti Val í Lengjubikarnum. 

Okkar stúlkur unnu góðan sigur gegn FH í fyrsta leik sem fram fór um síðustu helgi. Leikurinn endaði 5-1 þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði tvívegis en þær Sandra María Jessen, Rut Matthíasdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir skoruðu allar eitt mark. 

Þór/KA liðið er skipað mjög efnilegum leikmönnum á þessum tímapunkti og má þar nefna að Arna Kristinsdóttir, Hulda Karen Ingvarsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir komu allar inná gegn FH í sínum fyrsta mótsleik fyrir meistaraflokk. Þær eru allar 15-16 ára og verður því gaman að fylgjast með þeim sem og öðrum í liðinu í framtíðinni.

Leikurinn gegn Val verður mikil prófraun fyrir okkar stúlkur en átta leikmenn úr Val eru í A-landsliðinu sem leikur á Algarve í byrjun mars. Valsarar unnu einnig fyrsta leikinn sinn þegar þær sigurðu ÍBV 6-3. Þrír leikmenn frá Val hafa tengingu til Akureyrar en með þeim leika Arna Sif Ásgrímsdóttir sem var fyrirliði Þór/KA þegar við urðum Íslandsmeistarar, markmaðurinn Sandra Sigurðardóttir sem lék með Þór/KA/KS þegar hún var að hefja meistaraflokkferil sinn og Laufey Björnsdóttir sem lék upp alla yngriflokka KA.

Hvetjum alla til að mæta og styðja stelpurnar okkar. Fyrir þá sem ekki komast verður leikurinn sýndur í beinni á KA-TV.

Mynd: Skapti Hallgrímsson


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is