Áfram KA Menn

Stuðningsmannalag knattspyrnunnar í KA, Áfram KA Menn, er mjög gott lag sem lifir góðu lífi enn í dag og er spilað á öllum heimaleikjum liðsins. En hvernig kom það til að lagið varð til?

Sumarið 1989 er nokkuð sem aldrei mun gleymast í sögu Knattspyrnufélags Akureyrar. KA varð Íslandsmeistari í knattspyrnu eftir magnað sumar þar sem titillinn vannst í lokaumferðinni með sigri í Keflavík.

Þegar fjórar umferðir voru eftir af Íslandsmótinu í knattspyrnu sumarið 1989 kom Stefán Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar KA á þeim tíma, að máli við Bjarna Hafþór Helgason og spurði hvort hann gæti ekki samið söngstef sem mætti nota á þeim heimaleikjum sem liðið ætti eftir. Stefán sagði nefnilega nú vera raunhæft að KA gæti orðið Íslandsmeistari og því yrðu allir að leggja sitt af mörkum.

Bjarni Hafþór er upphaflega knattspyrnumaður í Völsungi frá Húsavík en spilaði þó aðallega með Þór á Akureyri og einnig Víkingi í Reykjavík. Börn Bjarna Hafþórs voru hinsvegar í KA enda bjó fjölskyldan við hliðina á KA svæðinu um margra ára skeið. Það var góð ástæða fyrir því að Stefán leitaði til Bjarna Hafþórs til að semja lag fyrir KA enda hafði hann nýlega samið lög sem höfðu náð miklum vinsældum, meðal annars með hljómsveitinni Skriðjöklar.

Bjarni Hafþór sagðist hugsa málið eftir beiðni Stefáns en lofaði hinsvegar engu. En strax daginn eftir var komin hugmynd að lagi og texta sem hann vann áfram. Þegar hvoru tveggja var fullskapað hafði hann samband við tvo grjótharða KA menn og bað þá að útsetja lagið með sér og flytja, þetta voru þeir bræður Karl og Atli Örvarssynir.

Þegar var hafist handa við að taka lagið upp í hljóðveri Samvers í Grundargötu 1 á Akureyri og stjórnaði Viðar Garðarsson upptöku. Liðsmenn meistaraflokks KA voru síðan kallaðir til og sungu viðlagið með Karli Örvarssyni. Þegar Stefán Gunnlaugsson var svo kallaður á svæðið segir Bjarni Hafþór það eftirminnilegt hve hissa Stefán var þegar hann heyrði lagið í fyrsta skiptið. Lagið var hlaðið hljóðfærum og sungið af Karli Örvarssyni sem þá var orðinn landsþekktur söngvari. Stefán hafði nefnilega aðeins beðið um lítið stef sem hægt væri að syngja við kassagítarundirleik í stúkunni!

Lagið var svo frumflutt á heimaleik KA gegn Val á Akureyrarvelli þann 9. september fyrir framan tæplega 2.000 manns í næstsíðustu umferð deildarinnar. Leikurinn var ekki sá eftirminnilegasti en lauk með jafntefli 1-1 þar sem Þorvaldur Örlygsson skoraði mark KA, að leik loknum fékk lagið svo spilun á útvarpsstöðvum landsins.

KA tryggði sér svo sigur á Íslandsmótinu með útisigri í Keflavík, 0-2, þar sem Örn Viðar Arnarson skoraði í fyrri hálfleik áður en Jón Ríkharð Kristjánsson innsiglaði sigurinn með marki á lokamínútunum. Liðið tók á móti bikarnum að leik loknum og undir hljómaði að sjálfsögðu nýja lagið. Hér má heyra upprunalegu útgáfuna af laginu góða.

Árið 2012 ákvað Jóhann Már Kristinsson að ráðast í endurútsendingu á laginu, með hjálp fjölda fyrirtækja sem og einstaklinga tókst að koma hlutunum í verk. Vinnslan á laginu fór fram sunnan heiða og um sönginn sá Eyþór Ingi Gunnlaugsson en upptöku stjórnaði Þórður Gunnar Þorvaldsson. Meistaraflokkur KA söng svo undir í viðlaginu rétt eins og í upphaflegu útgáfunni.

Nýja útgáfan var fullkláruð fyrir fyrsta heimaleikinn sumarið 2012 en hann var gegn Víking Reykjavík þann 25. maí. Leiknum lauk með jafntefli 1-1 og skoraði Dávid Disztl mark KA manna. Jóhann Már klippti til myndband við lagið og má sjá það og heyra nýjustu útgáfu lagsins hér að neðan.

Lagið lifir svo sannarlega góðu lífi í dag en eins og kom fram áður er lagið spilað á öllum heimaleikjum liðsins og þá spilar KA Bandið lagið á stórafmælum félagsins. Hér má sjá bandið spila lagið á 85 ára afmæli KA sem haldið var árið 2013. Bandið skipaði á þessum tíma: Stefán Jóhannsson (gítar og söngur), Árni Jóhannsson (bassi), Eiríkur S. Jóhannsson (gítar), Hannes Karlsson (tambúrina og söngur), Marín Eiríksdóttir (söngur) og Matthías Henriksen (trommur).

Við viljum þakka Bjarna Hafþóri Helgasyni kærlega fyrir aðstoðina við að taka saman söguna bakvið þetta magnaða lag.

Áfram KA Menn
Fótboltinn er æðisgengið áhugamál
sem okkur þjappar saman í eina stóra sál.
Við eigum okkar lið sem við fylgjum alla leið
og linnulítið hvetjum dátt
og látum okkar andstæðinga heyra hátt:

Við viljum sigur, við viljum sigur,
við viljum sigur í þessum leik.

Áfram KA menn, áfram KA menn, áfram KA menn.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is