Baráttusigur á Víkingum

Fótbolti
Baráttusigur á Víkingum
Mynd - Vísir.is / Eyþór

KA mætti Víkingum frá Reykjavík í kvöld í Fossvoginum og fóru leikar þannig að KA hafði betur 0-1 í miklum baráttuleik þar sem hart var barist.

Víkingur R. 0 – 1 KA

0 – 1 Vedran Turkalj (’12) Stoðsending: Ásgeir
0 – 1 Rautt spjald: Vladimir Tufegdic (’31)

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Vedran, Callum, Darko, Archange, Almarr, Hallgrímur Mar, Ásgeir, Steinþór Freyr og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Elí, Ólafur Aron, Davíð Rúnar, Tómas Veigar, Daníel, Bjarni og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Ásgeir út – Ólafur Aron inn (’77)
Hallgrímur Mar út – Davíð Rúnar inn (’90)
Steinþór Freyr út – Bjarki Þór inn (’95)

Það voru heimamenn í Víkingum sem voru líklegri á upphafsmínútum leiksins og voru þeir töluvert meira með boltann. Það var hins vegar KA sem komst yfir í leiknum eftir einungis 12 mínútna leik. Þá átti Darko langt innkast inn í teig sem Ásgeir skallaði á Vedran sem lét vaða á markið og lá boltinn í netinu og KA komið 0-1 yfir gegn gangi leiksins.

Fyrri hálfleikurinn var heldur tíðindalítill og fá martækifæri hjá báðum liðum. Um háfltíma leik fór leikmaður Víkings glæfralega með takana í bringuna á Callum og uppskar beint rautt spjald fyrir vikið.  Heimamenn voru gríðarlega ósáttir með dóminn og vildu meina að um samstuð hefði verið að ræða en Vilhjálmur Alvar dómari var viss í sinni sök. Eftir þetta atvik gerðist lítið og staðan í leikhléi því 0-1 KA í vil og liðið manni fleiri.

Síðari hálfleikur var til að byrja með eilítið betri að hálfu okkar manna liðið hélt boltanum betur en í þeim fyrri og fékk liðið afbragðs tækifæri til að bæta í forystuna þegar að KA fékk aukspyrnu rétt fyrir utan víteig heimamanna en Darko skaut yfir markið í góðri stöðu.

Það sem eftir lifði leiks var KA liðið varfærið og datt liðið heldur mikið aftur á völlinn þrátt fyrir að vera manni fleiri.  Víkingar fengu nokkur hættuleg marktækifæri það sem eftir lifði leiks en Rajko og vörn KA héldu aftur af Víkingum og fór svo að KA landaði kærkomnum sigri eftir þrjú jafntefli í röð. KA liðið varðist vel í dag og gaman að sjá liðið halda hreinu og sigla þremur stigum heim.

KA-maður leiksins: Srdjan Rajkovic (Rajko bjargaði þrígang meistaralega vel í markinu í dag og var öruggur í sínum aðgerðum. Frábær framistaða hjá Rajko sem og vörn KA.)

Næsti leikur KA er eftir viku þegar að við fáum Víking frá Ólafsvík í heimsókn. Hefst sá leikur kl. 18 og hvetjum við alla KA menn að fjölmenna á þann leik og styðja við bakið á liðinu. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is