Dagur í undanúrslit EM með U-18

Handbolti
Dagur í undanúrslit EM með U-18
Dagur og félagar eru í toppmálum á EM

Dagur Gautason og liðsfélagar hans í Íslenska landsliðinu í handbolta skipað leikmönnum 18 ára og yngri eru komnir alla leið í undanúrslit á EM í Króatíu eftir sigur í milliriðli keppninnar. Liðið er með þeim sterkari sem hafa komið upp í nokkur ár og er mjög gaman að fylgjast með strákunum.

Liðið byrjaði á að vinna góða sigra á Pólverjum og Svíum í riðlakeppninni og fylgdu því eftir með 28-24 sigri á Slóvenum þar sem Dagur gerði 3 mörk. Með sigrinum tryggðu strákarnir sér sigur í D-riðli sem og 2 stig í milliriðli en Svíar fóru áfram ásamt Íslandi.

Í fyrsta leik milliriðilsins mættu strákarnir Þýskalandi sem af mörgum voru taldir sigurstranglegasta liðið. Leikurinn var hin mesta skemmtun og var mikið jafnræði með liðunum framan af. Íslenska liðið náði góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks og leiddi að honum loknum 13-10. Í þeim síðari leiddu strákarnir og komust meðal annars í 5 marka forskot á tímabili. Þjóðverjarnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin og komust nálægt því en á endanum vann Ísland frábæran 23-22 sigur. Dagur gerði 3 mörk í leiknum og lék vel.

Með sigrinum voru strákarnir búnir að tryggja sér sigur í milliriðlinum og þar með sæti í undanúrslitum. Það var því ekki mikið undir í leiknum gegn Spánverjum og nýtti Heimir Ríkarðsson þjálfari liðsins tækifærið og dreifði álaginu vel. Spánverjar sem voru án stiga mættu grimmir til leiks og unnu sannfærandi 27-33 sigur þar sem Dagur gerði enn og aftur 3 mörk!

Strákarnir mæta heimamönnum í Króatíu í undanúrslitum mótsins á morgun, föstudag, og í hinum leiknum mætast Svíar og Danir. Árangurinn algjörlega frábær hjá liðinu og verður mjög gaman að fylgjast með leiknum á morgun. Það er miklu meira en að segja það að mæta heimamönnum í Króatíu á þessu stigi mótsins og verður þetta stórt próf fyrir liðið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is