Dagur í úrslit EM með U-18

Handbolti
Dagur í úrslit EM með U-18
Algjörlega frábært lið!

Dagur Gautason og liðsfélagar hans í U-18 landsliði Íslands í handbolta gerðu sér lítið fyrir og unnu heimamenn í Króatíu í undanúrslitum EM. Í úrslitaleiknum sem fer fram á sunnudaginn mæta strákarnir Svíþjóð en liðin mættust í riðlakeppni mótsins og þar vann Ísland 29-24 sigur.

Dagur stóð fyrir sínu að vanda í vinstra horninu og var fyrri hálfleikur jafn og spennandi. Íslenska liðið leiddi þó leikinn og var einu marki yfir í hálfleik 12-13. Í þeim síðari héldu strákarnir 2-3 marka forskoti og virtist ekkert fá á þá að vera að leika á móti gríðarlega sterku liði á heimavelli þess.

Þegar á leið bættu strákarnir bara við og komust í fimm marka forskot, 22-27. Króatarnir áttu fá svör við sterkum varnarleik og öguðum sóknarleik Íslenska liðsins og að lokum vannst 25-30 sigur og sætið í úrslitaleiknum tryggt. Dagur gerði alls 6 mörk í leiknum.

Ísland hefur orðið Evrópumeistari í þessum aldursflokki en það var árið 2003 þegar ógnarsterkt lið Íslands vann Þýskaland í úrslitaleik 27-23. KA átti tvo fulltrúa í því frábæra liði en það voru þeir Arnór Atlason og Árni Björn Þórarinsson. Það verður ótrúlega gaman að fylgjast með strákunum á sunnudaginn og hvort við fáum annað Evrópumeistaralið en hvernig sem fer að þá er árangurinn stórkostlegur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is