Sigur og tap í fyrstu æfingaleikjunum

Handbolti
Sigur og tap í fyrstu æfingaleikjunum
Það er farið að styttast í handboltatímabilið!

Það er farið að styttast í að tímabilið hefjist í handboltanum og er undirbúningur kominn á flug hjá karlaliði KA sem leikur í efstu deild í vetur. Liðið hefur æft líkamlega þáttinn vel í sumar og hófu æfingar með bolta í síðustu viku. Fyrsti leikur á tímabilinu er 10. september í KA-Heimilinu gegn Akureyri.

Strákarnir léku sína fyrstu æfingaleiki um nýliðna helgi er liðið fór suður en á föstudeginum var leikið gegn HK. Liðin börðust í umspili um sæti í Olís deildinni á síðasta tímabili þar sem KA vann sannfærandi sigur. Það vantaði nokkra leikmenn í KA liðið en Dagur Gautason er til að mynda á EM með U-18 landsliðinu og þá eru lítilsháttar meiðsli að plaga aðra.

KA liðið átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik og HK leiddi 13-10 að honum loknum. Strákarnir bættu sig töluvert í þeim síðari, náðu yfirhöndinni og unnu að lokum sætan 23-24 sigur þar sem Svavar Sigmundsson í marki KA varði til að mynda þrisvar á síðustu 13 sekúndum leiksins. Liðið var að leika góða 3-2-1 vörn en 6-0 vörnin virkaði hinsvegar á sama tíma ekki nægilega vel.

Á laugardeginum mættu strákarnir sterku liði FH, öfugt við leikinn gegn HK þá var spilamennskan virkilega góð í þeim fyrri og KA leiddi 17-20 að honum loknum. Liðið var að leika góða 6-0 vörn sem gaf þó nokkuð af hraðaupphlaupum og greinilegt að hópurinn er í fínu standi líkamlega og var gott tempó í sókninni. FH náði að snúa leiknum í þeim síðari en þá var KA liðið farið að rótera liðinu töluvert og heimamenn unnu að lokum sannfærandi.

Í samtali við heimasíðuna sagði Stefán Árnason annar af þjálfurum liðsins að í grunninn hefði ferðin nýst mjög vel. Það hefði verið gott að spila á þessum tímapunkti í undirbúningnum og það hefði verið ýmislegt sem leikirnir hefðu gefið þjálfarateyminu. Liðið hefði leikið tvo góða hálfleiki og tvo slæma sem væri í raun eðlilegt miðað við tímasetningu leikjanna. Mikill stígandi hefði verið í sóknarleiknum yfir helgina.

Framundan séu nú áframhaldandi æfingar, þar á meðal æfingaferð til Húsavíkur um næstu helgi og 23.-25. ágúst verður Opna Norðlenska mótið hér á Akureyri.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is