Grátlegt jafntefli gegn FH á Greifavellinum

Fótbolti
Grátlegt jafntefli gegn FH á Greifavellinum
Callum skoraði mark okkar í dag (Mynd: Sævar Geir)

KA tók á móti FH í 15. umferð Pepsi deildar karla í kvöld á Greifavellinum. Bæði lið eru í harðri baráttu um 4. sætið og voru því dýrmæt stig í boði í leik kvöldsins. Cristian Martinez markvörður KA gat ekki leikið vegna meiðsla og því lék hinn ungi Aron Elí Gíslason sinn þriðja leik í sumar.

KA 1 - 1 FH
1-0 Callum Williams ('65)
1-1 Brandur Olsen ('92)

Fyrri hálfleikurinn var ansi tíðindalítill og ansi lítið um færi. KA var ögn sterkari aðilinn en án þess þó að ná að opna vörn gestanna almennilega. Staðan var því markalaus er flautað var til hálfleiks og ósk allra í stúkunni að fá ögn meiri skemmtun í þeim síðari.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum nema að FH tók stjórnina. Á 63. mínútu skapaðist mikil hætta er Jákup Thomsen náði hörkuskoti innan úr teignum en Aron Elí gerði virkilega vel í markinu og varði skotið í horn.

Stuttu síðar kom fyrsta markið og það var enginn annar en Callum Williams sem gerði það fyrir KA með skalla eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni. Strax í kjölfarið kom líklega besta færi leiksins þegar Daníel Hafsteinsson komst einn í gegn en Gunnar Nielsen varði frá honum.

Í kjölfarið fór KA liðið að liggja meira aftur og gaf alls ekki færi á sér. Hafnfirðingarnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin og það kom seint í uppbótartíma þegar Brandur Olsen átti svakalegt skot fyrir utan teig sem steinlá í netinu og lokatölur 1-1.

Leikurinn í dag var alls ekki mikið fyrir augað en mjög flott að sjá skipulagið á liðinu og sárgrætilegt að hafa ekki náð að klára leikinn með þremur stigum.

Nivea KA-maður leiksins Callum Williams (Callum var mjög traustur í dag, lokaði vel á sóknir FH liðsins og skoraði markið með laglegum skalla. Callum búinn að vera mjög góður í sumar og gaman að sjá að hann er farinn að skora.)


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is