KA sækir Grindavík heim á fimmtudag

Fótbolti
KA sækir Grindavík heim á fimmtudag
Almarr skoraði í síðasta sigurleik KA í Grindavík

Hasarinn heldur áfram í Pepsi deildinni á morgun, fimmtudag, þegar KA sækir Grindvíkinga heim suður með sjó. Leikurinn er liður í 12. umferð deildarinnar og hefst klukkan 18:00, fyrir þá sem ekki komast til Grindavíkur þá verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Fyrir leikinn eru heimamenn í 5. sæti deildarinnar með 17 stig en eftir frábæra byrjun á sumrinu hafa Grindvíkingar tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni. KA liðið er hinsvegar að rétta úr kútnum eftir brösuga byrjun og situr í 8. sætinu með 12 stig.

Það er ljóst að verkefni morgundagsins verður mjög krefjandi en KA hefur gengið ákaflega illa gegn Grindvíkingum í gegnum tíðina og þá sérstaklega í Grindavík. Síðasti sigur KA í Grindavík kom árið 2007 þegar liðið vann 1-2 með mörkum frá Almarri Ormarssyni og Inga Frey Hilmarssyni. KA-maðurinn Jóhann Helgason gerði mark Grindvíkinga.

Eins og venjulega þá hvetjum við alla sem geta til að mæta á morgun og styðja okkar lið til sigurs, sumarið er hálfnað og þrátt fyrir erfiða byrjun á sumrinu þá er deildin enn galopin og því gríðarlega mikilvægt að halda áfram að hala inn stigum, sjáumst á vellinum og áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is