KA stöðvaði Bikarmeistarana

Fótbolti
KA stöðvaði Bikarmeistarana
Aron Elí frábær í kvöld (mynd: Þórir Tryggva)

KA sótti Stjörnumenn heim í Garðabæinn í kvöld í 20. umferð Pepsi deildar karla. Garðbæingar eru í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn á sama tíma og KA er að reyna að komast eins ofarlega í deildinni og hægt er. Stjarnan varð Bikarmeistari um helgina og var ljóst að okkar lið ætlaði sér að rífa þá niður á jörðina í kvöld.

Stjarnan 1 - 1 KA
0-1 Elfar Árni Aðalsteinsson ('62)
1-1 Sölvi Snær Guðbjargarson ('79)

KA hóf leikinn af miklum krafti og stýrði leiknum í upphafi, strákarnir komu sér í þó nokkur skipti í fínar stöður en það vantaði örlítið uppá nákvæmni í fyrirgjöfum til að skapa almennilega hættu. Heimamenn komu sér betur inn í leikinn er leið á fyrri hálfleikinn og úr varð hin fínasta skemmtun.

Þrátt fyrir ágæt færi á báða bóga þá tókst hvorugu liðinu að skora fyrir hlé og staðan því markalaus er menn gengu inn til búningsherbergja. Aron Elí Gíslason í marki KA sýndi enn og aftur að hann er sko klár í slaginn meðal þeirra bestu en hann varði nokkrum sinnum ansi vel.

Elfar Árni Aðalsteinsson kom KA svo yfir snemma í síðari hálfleik þegar hann þrumaði boltanum í netið eftir laglega sendingu frá Daníel Hafsteinssyni. KA liðið fagnaði markinu ansi vel en Garðbæingar unnu fyrri leik liðanna í sumar og ljóst að strákarnir ætluðu að hefna fyrir það í kvöld.

Stuttu síðar komst Hallgrímur Mar Steingrímsson ansi nálægt því að tvöfalda forystuna en skot hans fór yfir markið úr úrvalsfæri. Þá féll Vladimir Tufegdzic leikmaður KA á teigslínunni eftir klafs en dómari leiksins dæmdi ekkert.

Heimamenn áttu þó einnig sín færi og er kortér lifði leiks sýndi Aron Elí aftur snilli sína þegar hann varði fast skot frá Þorra Geir og staðan því enn 0-1. En Garðbæingar lögðu allt í sóknina enda máttu þeir engan veginn tapa leiknum og á 79. mínútu skallaði Sölvi Snær Guðbjargarson boltann í netið og staðan skyndilega orðin 1-1.

Pressan á KA vörninni var mikil á síðustu mínútunum og á 90. mínútu fékk Guðjón Baldvinsson algjört dauðafæri en Aron Elí varði stórkostlega frá honum. Ævar Ingi Jóhannesson fyrrum leikmaður KA fylgdi á eftir og kom boltanum í netið en var réttilega dæmdur rangstæður.

Daníel Hafsteinsson átti síðasta alvöru færi leiksins en skot hans var framhjá og liðin þurftu því að sætta sig við jafntefli. Stjörnumenn eru því komnir í ansi erfiða stöðu í toppbaráttunni en KA fer á sama tíma upp í 6. sætið enda með betri markatölu en Grindvíkingar.

Í heildina séð mjög flott frammistaða hjá KA, það hefði verið auðvelt að mæta í leikinn af hálfum hug og verða fallbyssufóður fyrir Stjörnumenn sem hafa verið frábærir í sumar og þurftu nauðsynlega á sigrinum að halda. En það býr mikill karakter í liðinu og með örlítilli heppni hefðu strákarnir getað landað sigri á þessum gríðarlega erfiða útivelli.

KA Nivea-maður leiksins Aron Elí Gíslason (Öskubuskusagan heldur áfram að vinda upp á sig ef svo má segja. Aron Elí hefur komið frábærlega inn í mark KA eftir meiðsli Cristian Martinez og sýndi líklega sína bestu frammistöðu með meistaraflokk til þessa í kvöld. Hann gat lítið gert í markinu og stoppaði allt annað, klárlega framtíðarmaður hjá KA)


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is