Þór/KA gerði jafntefli á Valsvelli

Fótbolti
Þór/KA gerði jafntefli á Valsvelli
Bryndís Lára varði nokkrum sinnum vel í kvöld

Það kom að því að eitthvað lið næði að kroppa stig af okkar stelpum og það gerðist í kvöld á Valsvelli. 1-1 jafntefli varð niðurstaðan á erfiðum útivelli.

Valur 1 - 1 Þór/KA
0-1 Sandra Mayor ('21)
1-1 Vesna Elísa Smiljkovic ('65)

Það var mikið undir í leiknum enda þurftu Valskonur á sigri að halda ef að þær ætluðu sér að blanda sér í toppbaráttuna. Okkar stelpur þurftu hinsvegar líka að halda áfram á sigurbraut enda toppslagur gegn Breiðablik í næstu umferð. Það kom því lítið á óvart að leikurinn hófst með mikilli baráttu og greinilegt að bæði lið ætluðu sér sigurinn.

Fyrsta markið kom á 21. mínútu þegar að Sandra Mayor gerði vel í að ná boltanum í teignum eftir langa sendingu frá Önnu Rakel Pétursdóttur. Sandra kom sér í fína stöðu og setti boltann í stöngina og inn. Drauma byrjun og þarna fór vel um stuðningsmenn Vals.

Heimakonur lögðu allt í sölurnar til að jafna metin en eins og svo oft áður var Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir frábær í marki Þórs/KA og þá bjargaði Bianca Sierra á línu eitt sinn. Staðan var því 0-1 þegar flautað var til hálfleiks og ljóst að Valskonur myndu halda áfram að pressa okkar lið í þeim síðari.

Í upphafi síðari hálfleiks hentu Söndrur leiksins í skemmtilega atburðarás en Sandra Sigurðardóttir í marki Vals kastaði boltanum út á Söndru Mayor sem senti á Söndru Maríu Jessen sem skaut að marki en Sandra í markinu varði!

Það var svo á 65. mínútu að heimakonur jöfnuðu metin. Hlín Eiríksdóttir kom með fyrirgjöf og einhvernveginn endaði boltinn hjá Vesnu Smiljkovic sem gat ekki gert annað en að klára og staðan orðin jöfn.

Bæði lið reyndu hvað þau gátu til að skora sigurmark enda vildu þau hvorug sætta sig við eitt stig. Valskonur komust næst því á 88. mínútu en Zaneta Wyne var vel vakandi á línunni og hreinsaði.

Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og fyrstu stigin sem Þór/KA missir af í deildinni. Það er hætt við því að forskotið á toppnum minnki aðeins við þessi úrslit en næsti leikur er lokaleikurinn fyrir EM hléið og það er útileikur gegn Breiðablik sem situr í 2. sæti. Það er alveg ljóst að sá leikur má alls ekki tapast, áfram Þór/KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is