Þór/KA lagði KR að velli

Fótbolti
Þór/KA lagði KR að velli
Sandra María skoraði eina markið í leiknum

Kvennalið Þórs/KA sótti KR-inga heim í 13. umferð Pepsi deildarinnar í kvöld. Fyrir leikinn voru KR stúlkur í botnsætinu og mátti því búast við hörkuleik enda KR liðið að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

KR 0 - 1 Þór/KA
0-1 Sandra María Jessen ('59)

Strax á 8. mínútu átti Anna Rakel Pétursdóttir góða aukaspyrnu sem var varin í slánna og út. Þar lúrði Zaneta Wyne sem náði boltanum en heimastúlkur björguðu á línu og staðan því enn markalaus.

Fyrri hálfleikurinn var algjör einstefna og spurningin var einfaldlega sú hvenær okkar stelpur myndu ná að skora fyrsta mark leiksins. KR stelpur reyndu við skyndisóknir þegar þær náðu boltanum en hættan frá þeim var ekki mikil.

En markið lét bíða eftir sér og enn var því markalaust þegar flautað var til hálfleiks. Síðari hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri, Þór/KA þjarmaði að marki KR og það bar ávöxt á 59. mínútu þegar Sandra María Jessen fékk sendingu frá hægri og þrátt fyrir að færið væri frekar þröngt gerði hún vel í því að koma boltanum í netið, staðan orðin 0-1 og markið loksins komið.

Skömmu síðar komst Sandra í samskonar færi en Hrafnhildur í markinu varði frá henni í þetta skiptið, Sandra Mayor fylgdi á eftir en enn tókst heimastúlkum að bjarga á línu.

Áfram hélt pressan að marki heimastúlkna og það var nákvæmlega ekkert sem benti til þess að þær myndu ná að jafna metin. Okkar stúlkur fengu nokkur fínustu færi sem ekki tókst að nýta. Sara Lissy Chontosh fékk svo rautt spjald undir lok leiksins sem gerði erfiða stöðu KR liðsins enn verri.

Niðurstaðan því 0-1 útisigur og á sama tíma tapaði lið ÍBV gegn Stjörnunni 2-1 sem þýðir að Þór/KA fer aftur upp í 4. sætið þegar einungis 5 leikir eru eftir af deildinni.

Næsti leikur er heimaleikur gegn FH á Þórsvelli miðvikudaginn 31. ágúst klukkan 18:00 og hvetjum við að sjálfsögðu alla til að mæta og styðja stelpurnar til sigurs, áfram Þór/KA!

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is