Keppnistímabilið 1994

Markatalan bjargaði KA frá falli

Með nýja þjálfara, KA-mennina Erling Kristjánsson og Steingrím Birgisson, byrjaði liðið vel með sigri gegn Selfossi 2-0 en að loknum fjórum umferðum var liðið enn með einn sigur eftir töp gegn Víkingi 1-2, Þrótti Reykjavík og Grindavík. Í fimmtu umferð vannst loks annar sigur og það gegn Þrótti Nes. Hvorki gekk né rak þannig var liðið með 11 stig eftir 13 umferðir og í 8. sæti af 10 liðum deildarinnar. Til að gleðja okkur KA-menn gerði KA-maðurinn Þorvaldur Örlygsson 3 mörk í 4-0 sigri Íslands á Eistlandi.

Akureyrarmótið tapaðist 2-3 í seinni leik og bröltið hélt áfram í deildarkeppninni en ólíkt höfðust þær að, dömurnar, þar sem þær urðu deildarmeistarar með 5-2 sigri á ÍBV.

Þrátt fyrir tap gegn HK í síðasta leik mótsins hékk liðið uppi, svo þunnur var þráðurinn að hefði Selfossi tekist að skora úr vítaspyrnu í sínum síðasta leik hefði KA fallið á lakari markatölu, fallið í 3. deild! Besti maður KA á heldur þunnu sumri þótti Bjarni Jónsson, Eggert markvörður efnilegastur og Ívar Bjarklind var markahæstur. Formaður deildarinnar, Ingólfur Hauksson, átti í viðræðum við skoska landsliðsmanninn, James Bett, sem næsta þjálfara KA. Ekki náðist þó botn í málið og ákveðið að ráða Frammarann Pétur Ormslev fyrir næsta leikár.

Sá hörmulegi atburður átti sér stað þann 19. nóvember að Sveinn R. Brynjólfsson kvaddi þennan heim í bílslysi, sá KA á bak einum af sínum mætustu mönnum og missir fjölskyldu hans verður ekki með orðum lýst. Sveinn hafði heimkominn frá Danmörku helgað KA líf sitt, var einn þeirra er lagði grunn að ESSÓ-móti KA auk annarra starfa fyrir félag sitt. Útför Sveins heitins fór fram þann 25. nóvember að viðstöddu miklu fjölmenni og kvöddu hundruðir KA-manna þennan góða dreng með trega.

Keppnistímabilið 1993 << Framhald >> Keppnistímabilið 1995

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is