Dýrmætur útisigur KA gegn HK í toppbaráttunni

Handbolti
Dýrmætur útisigur KA gegn HK í toppbaráttunni
Stefán Árnason messar yfir hópnum í leikhléi

KA liðið mætti í Kópavoginn á föstudagskvöldið í mikilvægan útileik gegn HK sem sat í 2. sæti Grill 66 deildarinnar. KA kom til leiks án tveggja lykilmanna en skyttan Áki Egilsnes var veikur og Hreinn Þór Hauksson meiddur og munaði um minna.

Jóhann Einarsson skoraði fyrsta mark leiksins en heimamenn í HK svöruðu með næstu þrem. Dagur Gautason og Jóhann sáu um að jafna í 3-3 og skömmu síðar náði KA forystunni á ný og hélt í kjölfarið tveggja til þriggja marka forskoti.

Jóhann Einarsson skoraði þrjú mörk í leiknum

Eftir tuttugu mínútna leik, þegar staðan var 8-9 kom frábær kafli sem skilaði fimm KA mörkum í röð og sex marka forskot staðreynd, 8-14. Bæði lið bættu við einu marki fyrir hálfleik þannig að KA leiddi 9-15.

Jovan Kukobat var hreint frábær í fyrri hálfleiknum, 11 varin skot og þar á meðal vítakast. HK menn spiluðu mestallan fyrri hálfleikinn með aukamann í sókninni en það reyndist þeim dýrkeypt, fengu á sig þrjú mörk í autt markið. Sigþór Árni Heimisson skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleiknum og stjórnaði sóknarleiknum af mikilli prýði.

Tímalína fyrri hálfleiks

Fyrri hluta seinni hálfleiksins hélt KA fimm marka forskoti og um miðjan hálfleikinn var staðan 16-21. HK tók það til bragðs að taka Sigþór Árna úr umferð. Varnarleikur KA liðsins datt niður og sömuleiðis markvarslan. Þetta nýttu HK menn sér og með fimm mörkum í röð jöfnuðu þeir leikinn í 21-21.

Sveiflan í leiknum heldur betur með heimamönnum en Jón Heiðar Sigurðsson minnti þá heldur betur á sig og KA náði tveggja marka forskoti á ný. Það sem eftir lifði leiks var spennan gríðarleg, HK minnkaði muninn í eitt mark en KA svaraði jafnharðan með marki á móti. Svo fór að lokum að KA vann eins marks sigur, 27-26 og svo sannarlega dýrmæt stig komin þar í hús.

Í heildina má segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið hreint frábærlega leikinn en arfaslakur kafli í seinni hálfleiknum hleypti óþarfa spennu í leikinn.

Tímalína seinni hálfleiks

Mörk KA: Sigþór Árni Heimisson 7, Jón Heiðar Sigurðsson 5, Andri Snær Stefánsson 4 (2 úr vítum), Jóhann Einarsson 3, Ólafur Jóhann Magnússon 3, Dagur Gautason 2, Sigþór Gunnar Jónsson 2, Daði Jónsson 1 og Jovan Kukobat 1 mark.
Jovan Kukobat stóð í markinu allan leikinn og varði samtals 16 skot, eitt vítakast og skoraði jafnframt eitt mark.

Mörk HK: Elías Björgvin Sigurðsson 10, Kristófer Dagur Sigurðsson 4, Bjarki Finnbogason 3, Svavar Kári Grétarsson 3, Friðgeir Elí Jónasson 2, Kristján Ottó Hjálmsson 2, Egill Björgvinsson 1, Ingi Rafn Róbertsson 1, og Tryggvi Þór Tryggvason 1 mark.

Eftir leikinn er KA áfram með fullt hús eða 16 stig eftir átta leiki og hefur fjögurra stiga forskot á HK og Akureyri en Akureyri á þó leik til góða.

Meðfylgjandi ljósmyndir tók Ernir Eyjólfsson, en þær birtust á visir.is
Fleiri myndir Ernis er hægt að skoða hér.

Leikurinn var í beinni útsendingin á KA-TV og hægt að horfa á leikinn í spilaranum hér að neðan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is