Sigrar og töp í handboltanum um helgina

Handbolti

Það er risastór helgi að baki í handboltanum hjá okkur en allir flokkar nema tveir öttu kappi. 

Eins og áður hefur komið fram á heimasíðu KA sigraði meistaraflokkur karla lið HK í Grill66 deildinni með einu marki eftir spennandi viðureign og stelpurnar okkar í KA/Þór gerðu góða ferð í Víkina 37-24. Bæði liðin eru í efsta sæti í sínum deildum þegar styttist í jólafrí.

KA-U spilaði tvo leiki um helgina í 2. deild karla. Þeir léku gegn HKu og FHu. Báðir leikirnir voru hörkuspennandi og munaði minnstu að KA myndi vinna HK en tvö dýrmæt vítaklúður á síðustu 5 mínútum leiksins varð til þess að HK náði að knýja fram sigur. Lokatölur 23-22.
Gaman var að sjá hvernig 4. flokks strákarnir Arnór Ísak og Ragnar Hólm komu inn í leik liðsins og spiluðu lungann af leiknum í vörn og sókn. Efnilegir piltar þar á ferð.

FH leikurinn var jafn og spennandi framan af. Okkar menn byrjuðu vel og var staðan jöfn 9-9 þegar 5 mínútur voru til hálfleiks. FH skoraði síðustu 3 mörk hálfleiksins og staðan 12-9 í hálfleik. Byrjunin á seinni hálfleik fór svo með leikinn þegar FH skoraði fyrstu 5 mörkin og ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir KA. KA menn klóruðu í bakkann í lokin og endaði leikurinn 27-23 fyrir FH.

Þriðji flokkur kvenna, KA/Þór1, fór suður yfir heiðar og lék við Val og FH. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar sýndu ekki sínar bestu hliðar á laugardeginum gegn Val og stórt tap niðurstaðan. Þær léku síðan gegn FH á sunnudeginum, efsta liði deildarinnar. Þar var um jafnan leik að ræða framan af og voru Norðanstúlkur að spila mun betri bolta en daginn áður. Góður kafli hjá FH undir lok leiksins gerði það hinsvegar að verkum að stelpurnar í 3. flokki kvenna gengu stigalausar frá helginni, en töluverð batamerki voru á leik liðsins milli daga.

Fjórði flokkur kvenna fór suður, bæði með yngra og eldra ár. Eldra árið lék gegn Haukum og Víking. Stelpurnar eru í 4. sæti deildarinnar með 4 stig eftir 5 leiki. Hvorugur leikurinn um helgina vannst, en stelpurnar sýndu mikla baráttu og spiluðu frábæra vörn á köflum. Slæmir kaflar inn á milli gerðu það að verkum að ekki náðist í neitt stig.

Yngra árið lék einnig tvo leiki gegn HK og FH. Þær sigruðu báða leikina, 19-9 og 16-10. Þær eru efstar í sinni deild, með fullt hús stiga eftir 7 leiki. Þær sýndu flotta spilamennsku á köflum og var sóknarleikurinn einkar flottur á tímabili. Þær hafa verið vaxandi í vetur og framtíðin björt ef fram fer sem horfir. Þjálfari liðsins hrósaði stelpunum eftir helgina fyrir góðan móral og mikinn liðsanda þrátt fyrir mótlæti.

5. flokkur kvenna fór á 2. stigamótið til Íslandsmeistaratitils um helgina í Hafnarfirði. Þær léku í 3. deild og voru ansi nálægt því að fara upp um deild. Þær léku fjóra leiki og sigruðu tvo, gerðu eitt jafntefli og töpuðu einum. Aðeins einu stigi frá því að fara upp í 2. deild. 

5. flokkur karla spilaði í 2. deild á sínu stigamóti til Íslandsmeistaratitils. Þeir spiluðu fjóra hörkuleiki og munaði aðeins nokkrum mörkum á að þeir myndu ná að vinna alla leikina. Þeir hinsvegar náðu aðeins einum sigri af fjórum mögulegum en sýndu miklar framfarir milli móta.

6. flokkur kvenna tefldi fram tveimur liðum á sínu stigamóti til Íslandsmeistaratitils. KA1 spilaði í 2. deild og sigraði þrjá leiki af fjórum og töpuðu aðeins gegn sterku liði ÍR sem fór upp um deild. KA2 spilaði í 3. deild og vann einn af fjórum leikjum sínum. Bæði liðin sýndu miklar framfarir milli móta og er gaman að segja frá því að 24 stelpur eru að æfa í 6. flokki og hefur þeim fjölgað töluvert milli ára.

6. flokkur karla tefldi fram tveimur liðum á sínu stigamóti til Íslandsmeistaratitils. Lið 1 vann einn leik af fjórum um helgina í efstu deild. Spiluðu fjóra jafna leiki sem hefðu getað farið á hvorn veginn sem var og enduðu í 4. sæti. Lið 2 vann alla fjóra leiki sína í 3. deildinni og sýndu miklar framfarir frá seinasta móti. Unnu því deildina og leika í 2. deild á næsta móti. Þá er einnig gaman að segja frá gríðarlegri fjölgun í 6. flokki en það eru 42 strákar að æfa, þar af 17 á eldra ári sem keppti um helgina.

Þá spiluðu 7. og 8. flokkur karla og kvenna á Norðurlandsmóti sem haldið var í Íþróttahöllinni. Þar skiptu úrslitin engu máli en allir höfðu gagn og gaman af. KA og KA/Þór tefldi fram 6 liðum í 7. flokki (af 8) og fjórum liðum í 8. flokki (af 8). Mótherjarnir voru Þór og Völsungur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is