Stórsigur KA á Hvíta riddaranum

Handbolti
Stórsigur KA á Hvíta riddaranum
Dagur Gautason og Andri Snær fagna marki Dags

Það var engin miskunn hjá KA liðinu þegar það mætti Hvíta Riddaranum í Mosfellsbænum í gærkvöldi. Eftir tíu mínútna leik var staðan 2-5 fyrir KA og hélst þriggja til fjögurra marka munur lengst af hálfleiksins. Síðustu fimm mínúturnar gáfu strákarnir hraustlega í og var munurinn orðinn átta mörk, 9-17 þegar flautað var til leikhlés.

Í upphafi seinni hálfleiks hélst þessi munur áfram en síðasta korterið tók KA öll völd á vellinum og jókst munurinn jafnt og þétt og sextán mörk skildu liðin, 22-38 þegar upp var staðið.

Hvítu Riddararnir reyndu að leika með sjö sóknarmenn en höfðu ekki árangur sem erfiði, þannig skoraði Jovan Kukobat þrjú mörk í autt mark þeirra. Riddararnir réðu lítið við Dag Gautason sem átti enn einn stórleikinn með tíu mörk úr jafnmörgum skotum. Áki Egilsnes kom aftur inn í liðið eftir stutta ferð til Færeyja og skilaði níu mörkum.

Mörk KA: Dagur Gautason 10, Áki Egilsnes 9, Andri Snær Stefánsson 5, Daði Jónsson 3, Jovan Kukobat 3, Sigþór Gunnar Jónsson 3, Jóhann Einarsson 2, Heimir Pálsson, Hreinn Þór Hauksson og Einar Birgir Stefánsson 1 mark hver.
Jovan Kukobat varði 19 skot í markinu og Svavar Ingi Sigmundsson 1 skot.

KA er því enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir sjö umferðir. Næsti leikur liðsins verður föstudaginn 17. nóvember en þá mæta þeir HK á heimavelli þeirra í Digranesinu. HK vann Míluna í gærkvöldi og situr í 2. sæti deildarinnar með 12 stig, hafa tapað einum leik.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is