Magnaður sigur á ÍBV í markaleik

Fótbolti
Magnaður sigur á ÍBV í markaleik
Mynd - Sævar Sig.

KA vann í dag magnaðan sigur á ÍBV í miklum markaleik þar sem alls voru skoruð níu mörk.

KA 6 – 3 ÍBV
0 – 1 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (’13)
0 – 2 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (’15)
1 – 2 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’18) Stoðsending: Ásgeir
2 – 2 Davíð Rúnar Bjarnason (’39) Stoðsending: Hallgrímur Mar
3 – 2 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’48) Stoðsending: Steinþór Freyr
4 – 2 Almarr Ormarsson (’53)
5 – 2 Emil Sigvardsen Lyng (’71) Stoðsending: Steinþór Freyr
6 – 2 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’79) Stoðsending: Steinþór Freyr
6 – 3 Arnór Gauti Ragnarsson (’91)


Hér má sjá mörkin úr leiknum í umfjöllun RÚV.

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Davíð Rúnar, Callum, Darko, Aleksandar, Almarr, Hallgrímur, Steinþór Freyr, Emil Lyng og Ásgeir.

Bekkur:

Aron Dagur, Baldvin, Ólafur Aron, Elfar Árni, Ívar Örn, Archange og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Ásgeir út – Archange inn (’72)
Emil út – Elfar Árni inn (’77)
Steinþór Freyr út – Baldvin inn (’83)

Það voru gestirnir úr Vestmannaeyjum sem hófu leikinn í dag af miklum móð og voru töluvert betri fyrstu mínútur leiksins. Leikurinn var aðeins 13 mínútna gamall þegar að Halldór Páll markvörður ÍBV átti langt útspark alla leið á Gunnar Heiðar sem hljóp upp boltann og lyfti honum yfir Rajko í markinu eftir misskilning milli Hrannars og Rajko um hvor ætti að taka boltann.

Það var svo örskömmu seinna sem Pablo Punyed átti fyrirgjöf sem hrökk af Davíð Rúnari og út í teiginn beint fyrir fætur Gunnars Heiðars sem þrumaði boltanum í netið og kom gestunum í 0-2.

KA liðið vaknaði svo sannarlega við seinna markið og var líkt og leikurinn hefði verið flautaður á við seinna mark Eyjamanna. KA elfdist mjög við mótlætið og var ljóst að liðið ætlaði ekki að gefa neitt eftir í dag.

Aðeins nokkrum mínútum eftir seinna mark Gunnars Heiðars átti Ásgeir frábæran sprett upp hægri vænginn og upp að endamörkum þar sem hann gaf fyrir á Hallgrím Mar sem hamraði boltanum í netið og kom KA aftur inn í leikinn.

Við markið kom eilítið meiri ró á leikinn en það var ekki mikil ró framundan eftir það. Á 39. mínútu fengu KA menn aukaspyrnu úti við hliðarlínu hægra megin sem Hallgrímur Mar tók. Hann átti góða spyrnu beint á kollinn á Davíð Rúnari sem skallaði boltann lystilega í netið og jafnaði metin fyrir KA.

Svo virtist vera að liðin myndu ganga til hálfleiks jöfn en sú varð ekki raunin. Þegar að þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma var brotið á Steinþóri Frey innan vítateigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Á punktinn steig Hallgrímur Mar sem skoraði af miklu öryggi í hægra hornið og fullkomnaði ótrúlega endurkomu KA í fyrri hálfleik 3-2 eftir að hafa lent undir 0-2.

Seinni hálfleikur var ekki síðri skemmtun en sá fyrri. KA liðið var líkt og í þeim fyrri mjög kraftmikið og keyrði á gestinna hvað eftir annað. Á 52. mínútu áttu Almarr og Ásgeir gott samspil sem endaði með því að boltinn hrökk af varnarmanni ÍBV og fyrir fætur Almars sem var kominn einn á móti markverði Eyjamanna og lék Almarr skemmtilega á markvörðinn og skoraði af öryggi í markið og kom KA í 4-2.

KA var hins vegar hvergi nærri hætt og á 71. mínútu var komið að Dananum Emil Lyng sem skoraði af harðfylgi eftir undirbúning frá Steinþóri Frey og staðan því 5-2 fyrir KA. Fimm mínútum síðar gerði svo Hallgrímur Mar endanlega út um leikinn með því að skora með skalla eftir fyrirgjöf frá Steinþóri Frey. Þrenna frá Grímsa og frábær frammistaða hans og Steinþórs kórónuð. Gestirnir í ÍBV klóruðu svo í bakkann í uppbótartíma þegar að Arnór Gauti fylgdi eftir skoti sem Rajko hafði varið út í teiginn og minnkaði muninn í 6-3 og þar við sat.

Hreint út sagt stórkostleg endurkoma hjá KA eftir að hafa lent 0-2 undir eftir einungis korter. Frábær vinnusemi og gæði í sóknarleik KA voru lykillinn að sigri í dag og vonandi það sem koma skal hjá liðinu.

Nivea KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (Skoraði þrennu og var með stoðsendingu í marki Davíðs. Var hreint út sagt magnaður og átti fullkominn leik. )

Næsti leikur KA er eftir viku og er það annar heimaleikur. Þá kemur Breiðablik í heimsókn. Leikurinn er sunnudaginn 23.júlí og hefst hann kl. 17.00. Mætum á völlinn og styðjum KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is