Samantekt frá félagsfundi KA - 3. hluti

Almennt

Metnaðarfullar framtíðarhugmyndir KA manna

Aðalstjórn KA stóð fyrir opnum fundi í KA-heimilinu síðastliðinn miðvikudag. Þar fluttu Ingvar Már Gíslason, formaður og Eiríkur S. Jóhannsson varaformaður framsögu um rekstrarumhverfi félagsins og framtíðar hugmyndir um uppbyggingu á félagssvæði KA.

KA menn létu sig ekki vanta, enda um mikilvæg málefni að ræða, og mættu rúmlega 300 manns á fundinn.

Eiríkur S. Jóhannsson varaformaður KA kynnti félagsmönnum framtíðarhugmyndir um uppbyggingu á KA svæðinu. Fram kom í máli hans að það sé stefna KA að öll starfsemi félagsins verði á einum stað, á núverandi svæði KA við Dalsbraut.

Mikil tækifæri eru fyrir Akureyrarbæ ef öll starfsemi KA fer fram á KA-svæðinu því þá losnar til dæmis það svæði sem Akureyrarvöllur er á, auk þess sem íþróttahúsið við Laugagötu myndi losna en júdódeild KA er þar með aðstöðu í dag“, sagði Eiríkur meðal annars.

Hugmyndir KA varðandi framtíðaruppbyggingu hafa verið í vinnslu um nokkuð langt skeið og hefur félagið kynnt drög að útfærslum á tveimur afmælum félagsins auk þess að hafa átt fundi með forsvarsmönnum Akureyrarbæjar. Meðal þess sem KA vill byggja á svæðinu er fjölnotahús, keppnisvöll með gervigrasi, stúkubyggingu sem stenst leyfiskerfi KSÍ fyrir keppni í efstu deild og nýtt félagsheimili þar sem jafnframt verði æfingaaðstaða fyrir aðrar íþróttagreinar.

Með slíkri uppbyggingu hér á KA-svæðinu verða tækifærin mýmörg til þess að stytta vinnudag barna m.a. með samþættingu frístundar og fjölbreyttu íþróttastarfi. Börn í 1-4 bekk ná þannig að klára íþróttastarf sitt ásamt frístund fyrir kl 16.00 á daginn.


Möguleg framtíðaruppbygging KA-svæðisins (smelltu á myndina til að sjá hana stærri)

A: 2. hæða hús með nýju anddyri, móttöku, kaffihúsi, veislusal, búningsklefum, æfingasal og skrifstofu.

B - Stúka fyrir aðalkeppnisvöll

C - Fjölnotahús og áhaldageymsla

D - Áhorfendasvalir fyrir fjölnotahús og tenging við núverandi íþróttahús

E - Aðalkeppnisvöllur knattspyrnudeildar

F - Æfingavellir með gervigrasi

G - Æfingasvæði spaðaíþrótta og sparkvöllur

H - Æfingasvæði með grasi

I - Mögulegt svæði fyrir íþrótta og eða skólamannvirki

J - Núverandi íþróttahús KA

K - Gönguleiðir að og frá svæðinu

P - Bílastæði

Skynsamlegt að KA beri ábyrgð á uppbyggingunni

KA vill bera ábyrgð á framkvæmdinni með því að stofna rekstrar- og eignarhaldsfélag um uppbygginguna og sjá um fjármögnun á verkefninu. Fjármögnunin helst í hendur við leigu og rekstrarsamning við Akureyrarbæ til 15-20 ára

Þetta uppbyggingarform er að okkar mati mjög heppilegt fyrir bæinn, KA getur nýtt sér kraft sjálfboðaliða sem sannarlega hafa sýnt félaginu stuðning í fyrri framkvæmdum félagsins. Félagið ætti að geta gert sér einhvern pening úr þessu um leið og við náum að deila hagkvæmninni til bæjarins“, sagði Eiríkur

Jafnframt koma fram í máli Eiríks að það sé mat félagsins og fleiri, að Akureyrarbær geti fjármagnað stóran hluta af verkefninu með sölu Akureyrarvallar, sem er í anda aðalskipulags bæjarins 2018 -2030.

Við teljum að með þeim hugmyndum sem við höfum kynnt, náum við betri nýtingu á rekstri núverandi íþrótta- og skólamannvirkja sem og betri rekstri á öðrum íþróttagreinum sem gætu fundið sér heimili innan félagsins, allt í góðu samhengi við kynnta stefnu ÍBA.

Hefjist framkvæmdir á svæðinu á árinu 2019 má ætla að taka megi megnið af mannvirkjunum í fulla notkun á árunum 2020 og 2021“. Sagði Eiríkur að lokum

Að lokinni framsögu fengu þeir stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til kosninga 26.maí að segja sína skoðun á uppbyggingarhugmyndum KA. Af orðum þeirra flestra að dæma er þess ekki langt að bíða að framkvæmdir geti hafist á KA svæði.

Smelltu hér til að lesa fyrsta hluta yfirferðarinnar

Smelltu hér til að lesa annan hluta yfirferðarinnar


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is