KA/Þór fær FH í heimsókn á laugardaginn - "Gríðarlega mikilvægur leikur"

Handbolti

KA/Þór tekur á móti FH í Grill66 deild kvenna á laugardaginn kl. 13:45 í KA-heimilinu. Miðaverð er sem fyrr 1000kr en frítt er fyrir 16 ára og yngri. 

"Við búum okkur undir hörku leik. FH hefur fengið inn tvo burðarása sem ekki voru með liðinu þegar við mættum þeim í bikarnum," sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þór við heimasíðuna og bætti við: "Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir okkur og til þess að halda toppsætinu."

Stuðningurinn við liðið í vetur hefur verið ágætur en lengi má gott bæta. Liðið er taplaust á heimavelli og biðlar Jónatan til stuðningsmanna og Akureyringa allra að koma á völlinn: "Stelpurnar eiga stuðninginn svo sannarlega skilið. Ég hvet alla Akureyringa til þess að mæta á völlinn á laugardaginn og fara síðan í jólainnkaupin. Áfram KA/Þór"


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is