KA/Þór stelpur á sigurbraut

Almennt | Handbolti | Yngriflokkar
KA/Þór stelpur á sigurbraut
Aldís Ásta stýrði sóknarleiknum með glæsibrag

KA/Þór stelpur spilaði á Laugardaginn við ungmennalið Fram í Safamýri. Eftir tvo sigurleiki voru stelpurnar staðráðnar í því að halda áfram á sigurbraut. Án fyrirliðans Mörthu Hermannsdóttur, Katrínar Vilhjálmsdóttur og Köru Rúnar Árnadóttur sem allar eru frá vegna meiðsla var ljóst að ungu stelpurnar fengu mikla ábyrgð. Una Kara Vídalín og Katrín Óladóttir komu inn í hópinn, Katrín í sínum fyrsta meistaraflokksleik.

Stelpurnar byrjuðu leikinn mjög vel, komust í 4-0 og leiddu allan fyrri hálfleik. Vörn og markvarsla mjög góð eins og oft áður. Sóknarleikurinn var líka mun betri en á móti Fylki og leiddum við í hálfleik 15-10. Fram U mætti til leiks með nokkra leikmenn sem spila einnig með Íslandsmeistaraliðinu í Olís deildinni svo ljóst var að þessi leikur yrði verðugt verkefni.

Stelpurnar okkar mættu svo geysisterkar inn í seinni hálfleik og juku forskotið. Það er skemmt frá því að segja að leikurinn varð aldrei spennandi, okkar stelpur spiluðu frábærlega, bæði i vörn og sókn og áttu Fram stelpur fá svör. Ásdís Sigurðardóttir var illviðráðleg fyrir Frammara og brugðu þær á þann leik að taka hana úr umferð, en það breytti engu fyrir okkar stelpur. Aldís Ásta Heimisdóttir stýrði sóknarleiknum með glæsibrag, Steinunn Guðjóns skoraði mörk í öllum regnbogans litum og Ásdís Guðmundsdóttir var geysisterk á línunni og í hraðupphlaupum. 

Mörk KA/Þór: Ásdís Guðmundsdóttir 8, Steinunn Guðjónsdóttir 7, Ásdís Sigurðardóttir 5, Una Kara Vídalín Jónsdóttir 3, Þóra Björk Stefánsdóttir 2, Aldís Ásta Heimisdóttir 1, Arna Valgerður Erlingsdóttir 1, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1, Ólöf Marín Hlynsdóttir 1 og Svala Björk Svavarsdóttir 1 mark.

Lokatölur 30-18 og okkar stelpur ásamt HK taplausar á toppi Grill 66 deildarinnar.

Á sunnudaginn næstkomandi er svo aftur útileikur. Stelpurnar fara í Austurbergið og spila við ÍR, og er ljóst að sá leikur verður mjög erfiður, enda ÍR búið að bæta við sig góðum leikmönnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is