Leikur dagsins: Akureyri - FH

Handbolti

Það er runninn upp leikdagur hjá meistaraflokki karla hjá Akureyri. Síðasta umferð í fyrsta hluta Olís deildarinnar og það eru FH-ingar sem mæta í KA heimilið. Akureyri þarf svo sannarlega á stigunum úr leiknum að halda og því köllum við eftir stuðningi allra sem lagt geta lið.

FH liðið vann Fram með einu marki í síðustu umferð og þar á undan unnu FH ingar magnaðan fjögurra marka útisigur á Haukum þannig að þeir eru til alls líklegir. Líkt og undanfarin ár þjálfar Halldór Jóhann Sigfússon FH liðið. Akureyringurinn Ásbjörn Friðriksson hefur verið leiðtogi liðsins undanfarin ár en varð fyrir því óláni að meiðast í þriðju umferðinni og munar um minna.

Tveir leikmenn bera uppi markaskorun liðsins, Einar Rafn Eiðsson hefur skorað 54 mörk og Óðinn Þór Ríkharðsson 53. Þar á eftir koma Jóhann Birgir Ingvarsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson með 27 mörk hvor. Þá er ónefndur markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson sem hefur verið albesti maður FH-liðsins undanfarin tvö ár.

Á síðasta tímabili mættust liðin einu sinni hér fyrir norðan og varð viðureignin viðburðarík. Akureyri missti mann af velli með rautt spjald eftir 45 sekúndna leik en létu það ekki slá sig út af laginu. Ingimundur Ingimundarson endaði fyrri hálfleikinn með sannkölluðu Duranona marki sem heldur betur kveikti í stemmingunni. Að lokum fór Akureyri með fimm marka sigur og er hér hægt að skoða svipmyndir frá leiknum svo og viðtöl við þjálfarana.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 í dag og hvetjum við alla til að koma og hvetja sitt lið. Fyrir þá sem ekki komast gerum við ráð fyrir að sýna leikinn beint á heimasíðu Akureyrar.
Hér finnur þú upplýsingar um útsendinguna þegar nær dregur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is