Sigþór Gunnar í 8-liða úrslit á EM

Handbolti

Íslenska landsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri er komið áfram í 8-liða úrslit eftir magnaða endurkomu í riðlakeppninni. Íslenska liðið lék gegn Rúmeníu, Svíþjóð og Þýskalandi og á KA einn fulltrúa en það er Sigþór Gunnar Jónsson. Bjarni Fritzson er þjálfari liðsins.

Strákarnir hófu leik gegn sterku liði Rúmena og strax á fyrstu mínútu mátti sjá að leikurinn yrði gríðarlega erfiður. Rúmenarnir náðu strax góðu forskoti og gerðu í raun útum leikinn, hálfleikstölur voru 15-5 og einungis sæmdin undir í þeim síðari. Lokatölur voru 29-19 og alls ekki byrjunin sem strákarnir ætluðu sér. Sigþór Gunnar gerði 1 mark í leiknum.

Það var því ansi jákvætt að sjá hve vel liðið mætti vel stemmt til leiks gegn Svíum en Svíarnir höfðu náð jafntefli gegn Þýskalandi í fyrsta leik. Öflugur varnarleikur skilaði strákunum hraðaupphlaupum og var frábært að sjá til liðsins í fyrri hálfleik en að honum loknum leiddi Ísland 19-12. Í þeim síðari löguðu Svíarnir stöðuna en ógnuðu í raun aldrei sigri Íslands og 35-33 sigur staðreynd. Aftur var okkar maður meðal markaskorara og gerði hann 1 mark í leiknum.

Lokaleikurinn í riðlinum var svo gegn toppliði Þjóðverja sem höfðu unnið Rúmena, ansi krefjandi verkefni og þeir Þýsku leiddu leikinn og voru 16-12 yfir í hálfleik. Íslensk lið eru ekki beint þekkt fyrir að leggja árar í bát og það gerðu strákarnir sko ekki, voru undir allan síðari hálfleikinn en minnkuðu muninn og gerðu svo frábært jöfnunarmark á lokasekúndunni sem tryggði 25-25 jafntefli. Sigþór Gunnar gerði að venju 1 mark í leiknum.

Liðið þurfti því að bíða eftir leik Svía og Rúmena til að sjá hvort liðið færi áfram í 8-liða úrslit sem eru leikin í milliriðli. Svíarnir gerðu okkur mikinn greiða með því að vinna 40-31 stórsigur og Ísland endar því í 2. sæti í riðlinum og er komið áfram og hefur leik í milliriðlinum með stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is