Tap í spennuleik ungmennaliðanna

Handbolti
Tap í spennuleik ungmennaliðanna
Sigþór Gunnar Jónsson var öflugur í leiknum

Bæði KA og Akureyri tefla fram ungmennaliðum í karlaflokki sem bæði leika í 2. deild karla. Liðin mættust síðastliðið mánudagskvöld í KA heimilinu. Óhætt er að segja að byrjun leiksins hafi verið KA liðinu erfið þar sem ekkert féll með strákunum. Akureyrarliðinu gekk hins vegar allt í haginn á meðan og skoraði fyrstu fimm mörk leiksins áður en KA komst á blað.

Mestur varð munurinn sex mörk í fyrri hálfleiknum, 4-10 en þá varð algjör viðsnúningur og það sem eftir lifði hálfleiksins skoruðu KA menn 7 mörk gegn einu marki Akureyrar þannig að staðan var jöfn, 11-11 þegar blásið var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur var öllu jafnari þrátt fyrir að Akureyrarliðið væri með frumkvæðið. Lengst af var munurinn eitt til tvö mörk og mikil spenna í loftinu. Akureyri komst fjórum mörkum yfir í stöðunni 20-24 og 21-25 en KA menn sýndu mikla baráttu og skoruðu þá þrjú mörk í röð, staðan orðin 24-25 og síðasta mínútan runnin upp.

KA vann boltann og Jónatan Marteinn Jónsson geystist upp í hraðaupphlaup. Þegar hann var kominn langleiðina upp völlinn var brotið á honum með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið og meiddist illa. Öllum að óvörum dæmdu dómararnir sóknarbrot á Jónatan þannig að Akureyri fékk síðustu sóknina í leiknum sem skilaði þeim marki og þar með tveggja marka sigri, 24-26.


Jónatan borinn af leikvelli á sjúkrabörum

Jónatan var í kjölfarið fluttur burt í sjúkrabíl og mun hafa farið úr hnjálið í fyrrnefndu atviki.

Sigþór Gunnar Jónsson fór fyrir markaskorun KA manna en samkvæmt óstaðfestum upplýsingum skoraði hann 10 mörk, Heimir Pálsson 4, Jónatan Marteinn Jónsson 4, Kristján Garðarsson 2, Elvar Reykjalín 1 og Sigurður Sveinn Jónsson 1 mark (vantar upplýsingar um tvö markanna). Ásgeir Kristjánsson og Svavar Ingi Sigmundsson stóðu vaktina í markinu og óhætt að segja að Ásgeir hafi farið hamförum seinni hluta fyrri hálfleiksins.

Hjá Akureyri var Sigmar Pálsson markahæstur.

Þórir Tryggvason sendi okkur myndir frá leiknum sem hægt er að skoða hér.

Fleiri myndir Þóris frá leiknum skoða hér.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is