U-18 fékk silfur, Dagur besti vinstri hornamaðurinn

Handbolti
U-18 fékk silfur, Dagur besti vinstri hornamaðurinn
Dagur og Haukur voru frábærir á mótinu (mynd: HSÍ)

Dagur Gautason og liðsfélagar hans í Íslenska landsliðinu í handbolta skipað leikmönnum 18 ára og yngri þurftu að sætta sig við silfur á EM í Króatíu í dag eftir 27-32 tap gegn Svíum í úrslitaleik mótsins. Strákarnir höfðu fyrr í mótinu unnið Svía sannfærandi en frændur okkar komu fram hefndum í dag.

Svíarnir byrjuðu betur og náðu snemma 1-7 forskoti og í kjölfarið 3-9 en þá komu sex Íslensk mörk í röð og staðan skyndilega orðin 9-9. Leikurinn var hnífjafn og var jafnt, 12-12, þegar flautað var til hálfleiks.

Áfram var hart barist í þeim síðari og mátti vart sjá hvort liðið myndi fara með sigur af hólmi. En undir lok leiks tókst þeim Sænsku að síga framúr og fóru að lokum með fimm marka sigur og hömpuðu þar með Evrópumeistaratitlinum.

Dagur var öflugur að vanda og gerði 4 mörk í leiknum en að leik loknum var hann svo valinn besti vinstri hornamaður mótsins sem er gríðarlegur heiður og óskum við honum að sjálfsögðu til hamingju með valið sem og frábæran árangur á mótinu sjálfu þó að gullið hafi runnið liðinu úr greipum.

Haukur Þrastarson var auk þess valinn besti leikmaður mótsins, það er því alveg ljóst að framtíðin er björt í íslenskum handbolta. Nú bíðum við bara spennt að sjá til kappans með KA á komandi tímabili.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is