Árin 1980 - 1987

Fyrirfram var búist við því að veturinn 1980-1981 yrði KA handboltamönnum þungur í skauti. Bræðurnir Alfreð og Gunnar Gíslasynir voru þá gengnir til liðs við KR en þeir höfðu báðir leikið með unglingalandsliði Íslands. Og báðir áttu þeir eftir að leika með A-landsliði. Þar kom þó að Gunnar sneri baki við handboltanum og helgaði sig algjörlega knattspyrnunni. Alfreð varð aftur á móti einn besti handknattleiksmaður Íslendinga. Það var haustið 1976 að hann hóf að leika með meistaraflokki KA. Frá Akureyri lá leiðin til Reykjavíkur í Háskólann og KR. Fljótlega byrjuðu vestur-þýsk félagslið að bera víurnar í Alfreð en það var ekki fyrr en í maí 1983 að hann gekk til samninga við Tusem Essen. Um haustið fluttist Alfreð til Vestur-Þýskalands þar sem hann lék með Essen fram til 1988 og varð þrisvar Þýskalandsmeistari með liðinu.

Vafalaust var það einmitt vegna brottfarar þeirra bræðra, Alfreðs og Gunnars sumarið 1980, að menn voru heldur vondaufir um að 1. deildarsætið ynnist þá um veturinn. En þrátt fyrir alla svartsýni fór samt svo að KA sigraði í deildinni, vann alla heimaleiki sína en aðeins einn útileik. Aðspurður um þetta gengisleysi á útivelli svaraði Þorleifur Ananíasson fyrirliði KA því til að liðið saknaði Alfreðs: „Ef illa gekk í fyrra gat hann húrrað menn upp með góðum mörkum...“

Meistaraflokkur KA 1981
Meistaraflokkur KA 1981. Standandi frá vinstri: Hermann Haraldsson, Magnús Gauti Gautason, Magnús Birgisson, Guðmundur Guðmundsson, Gunnar Gíslason, Jóhann Einarsson, Friðjón Jónsson, Erlingur Kristjánsson, Guðmundur Lárusson og Birgir Björnsson þjálfari. Krjúpandi: Þorleifur Ananíasson, Jóhannes Bjarnason, Sveinbjörn Hjörleifsson, Aðalsteinn Jóhannsson, Björn Friðþjófsson, Jakob Jónsson. Ljósmynd Dagur.

Í 1. og 2. deild á víxl

Að þessu sinni stóð KA ekki lengi við í 1. deildinni. Af 14 leikjum tókst liðinu aðeins að vinna tvo, öðrum töpuðu þeir. Þrátt fyrir þetta afhroð átti félagið fimmta markahæsta leikmanninn í deildinni, Friðjón Jónsson, en markahæstur þennan veturinn var Alfreð Gíslason, fyrrum leikmaður með KA.

Þegar haustaði hafði KA ráðið nýjan þjálfara, Danann Jan Larsen, í stað Birgis Björnssonar, sem stjórnað hafði liðinu í fjögur ár. Undir leiðsögn Larsens tókst KA að verða efst í 2. deildinni veturinn 1982-1983 en þar með var björninn ekki unninn. Við tók úrslitakeppni fjögurra bestu liðanna um tvö 1. deildarsæti. Mótherjar KA voru Haukar, Grótta og Breiðablik.

Friðjón Jónsson hátt í loft uppFriðjón Jónsson hátt í loft upp í Íþróttahöllinni

KA menn byrjuðu illa í þessari lokakeppni, þeir töpuðu stórt fyrir Breiðablik, gerðu jafntefli við Hauka en unnu góðan sigur á Gróttu. Eftir mikinn barning og kærumál á hendur Kópavogsbúum fyrir að nota ólöglegan leikmann tókst KA að tryggja sér 2. sætið í úrslitakeppninni, einu stigi á eftir Haukum, og þar með rétt til að leika í 1. deild að ári.

Þegar veturinn 1983-1984 rann upp höfðu orðið miklar breytingar á liði KA. Þjálfarinn Larsen var farinn til síns heima og með honum tveir Danir aðrir sem leikið höfðu með KA veturinn á undan. Unglingalandsliðsmaðurinn Jakob Jónsson var genginn í KR og þeir Friðjón Jónsson, bróðir Jakobs, Guðmundur Guðmundsson og Erlendur Hermannsson, voru einnig horfnir á braut. Handknattleikslið KA hafði því tekið stakkaskiptum þegar Birgir Björnsson þjálfari tók við því á nýjan leik. Þó voru inn á milli kunnugleg andlit. Magnús G. Gautason stóð enn í markinu og þennan vetur lék hann sinn 300. deildarleik. Einnig höfðu þeir Þorleifur Ananíasson, Jóhann Einarsson, Kristján Óskarsson og Erlingur Kristjánsson, allir spilað áður undir stjórn Birgis. Þá voru ungir og upprennandi leikmenn byrjaðir að láta að sér kveða svo sem hornamaðurinn Logi Einarsson og stórskyttan, og síðar unglingalandsliðsmaðurinn, Jón Kristjánsson.

Meistaraflokkur KA 1984
Meistaraflokkur KA 1984. Frá vinstri: Guðmundur Lárusson, liðsstjóri, Kristján Óskarsson, Hafþór Heimisson, Þorleifur Ananíasson, Sæmundur Sigfússon, Jón Kristjánsson, Magnús Gauti Gautason, Þorvaldur Jónsson, Jóhann Einarsson, Sigurður Sigurðsson, Magnús Birgisson, Logi Einarsson, Jóhannes Bjarnason, Birgir Björnsson, þjálfari. Ljósmynd Dagur.

Þrátt fyrir góðan ásetning tókst KA ekki að halda sæti sínu í 1. deild og um vorið 1984 féllu þeir á nýjan leik niður um deild. En þar héldu þeim engin bönd og haustið 1985 voru þeir enn á ný komnir í hóp átta bestu handknattleiksliða Íslands.

Íslandsmeistarar í 2. deild 1985
Íslandsmeistarar í 2. deild 1985. Aftari röð frá vinstri: Helgi Ragnarsson, þjálfari, Ragnar Gunnarsson, Pétur Bjarnason, Jón Kristjánsson, Erlingur Kristjánsson, Friðjón Jónsson, Anton Pétursson, Hermann Haraldsson, liðsstjóri. Fremri röð: Hafþór Heimisson, Erlendur Hermannsson, Þorvaldur Jónsson, Þorleifur Ananíasson, Bergur Pálsson, Logi Einarsson.

Ílendst í 1. deild

„Þjálfari sem ekki stefnir á toppinn hefur ekki trú á sínu liði,“ svaraði hinn nýi þjálfari KA, Júgóslavinn Ljubo Lazic, aðspurður af blaðamanni Dags um væntanlegt gengi KA í 1. deildinni veturinn 1985-1986. Ljubo bætti því við að 5. sætið væri raunhæft markmið, allt þar fyrir ofan færi fram úr björtustu vonum.

En það ætlaði að verða torsótt 5. sætið. Þegar mótið var rúmlega hálfnað var KA að vísu í 5. sæti en engu að síður í fallbaráttu. Í 12. umferð fengu norðanmenn Fram í heimsókn sem þá var aðeins einu stigi á eftir þeim í deildinni. Fyrir leikinn gerðu menn því skóna að það lið sem hefði vinninginn væri um leið úr fallhættu. Leikmennirnir sjálfir gerðu sér mæta vel grein fyrir því að mikið var í húfi. Þeir lögðu sig alla fram og eftir mikla baráttu tókst KA að hafa sigur. Um leikmenn KA skrifaði Skapti Hallgrímsson, blaðamaður Morgunblaðsins, eftir leikinn:

„Lið KA er þokkalega sterkt. Skyttur þess eru ágætlega öflugar þótt laugardagurinn [4. janúar 1986] hafi reyndar ekki verið þeirra besti dagur í vetur. Jón Kristjánsson, unglingalandsliðsmaður, lék nú með að nýju eftir meiðsli og stóð sig vel. Geysisterkur leikmaður þar á ferðinni – sannarlega maður framtíðarinnar. Erlingur bróðir hans er traustur og Guðmundur Guðmundsson og Logi Einarsson léku einnig vel. Logi er að verða mjög öruggur í horninu – misnotar varla marktækifæri.“

Og KA menn gerðu það ekki endasleppt. Þeir sigruðu í þeim tveimur leikjum sem þeir áttu eftir í deildinni og höfnuðu í 4. sæti. Vegna heimsmeistarakeppninnar í Sviss sem hefjast átti í endaðan febrúar þennan vetur, lauk deildakeppni á Íslandi í janúar. En í apríl bárust þær ánægjulegu fréttir frá Noregi að Akureyringurinn og fyrrum KA maðurinn Jakob Jónsson hefði verið valinn í lið ársins þar í landi af norskum þjálfurum.

Meistaraflokkur KA 1986
Meistaraflokkur KA 1986. Aftari röð frá vinstri: Hermann Haraldsson, liðsstjóri, Anton Pétursson, Jón Kristjánsson, Erlingur Kristjánsson, Guðmundur Guðmundsson, Pétur Bjarnason, Axel Björnsson, Ljubo Lazic, þjálfari. Fremri röð: Hafþór Heimisson, Sigurður Pálsson, Sigmar Þröstur Óskarsson, Þorvaldur Jónsson, Þorleifur Ananíasson, Logi Einarsson. Ljósmynd Norðurmynd.

Og enn höfðu KA menn verið á faraldsfæti þegar Íslandsmótið veturinn 1986-1987 hófst. Erlingur og Logi voru horfnir á braut. Sigmar Þröstur Óskarsson, sem varið hafði mark KA lengst af vetrinum á undan, var fluttur á suðvesturhornið og Þorleifur Ananíasson hafði lagt skóna á hilluna. Þeir fengu þó ekki að rykfalla þar því að um vorið 1987 var Þorleifur enn á ný orðinn leikmaður í 1. deildarliði KA. Þá var Ljubo farinn af landi brott og Brynjar Kvaran, landsliðsmarkvörður, tekinn við þjálfun liðsins, auk þess að leika með því.

Ekki verður annað sagt en að Brynjar hafi fengið úr góðum efniviði að moða þennan veturinn. Þar voru unglingalandsliðsmennirnir, Axel Björnsson og Jón Kristjánsson. Friðjón Jónsson og Jóhannes Bjarnason voru komnir í heimahagana eftir nokkra fjarveru. Veturinn á undan hafði línumaðurinn Guðmundur Guðmundsson snúið aftur til KA eftir dvöl hjá Íslandsmeisturum Víkings um tíma. Pétur Bjarnason hafði hætt við að ílendast á erlendri grund og ungir og efnilegir leikmenn eins og Eggert Tryggvason, Hafþór Heimisson og Svanur Valgeirsson, þrengdu sér fram á sjónarsviðið. Frá Þórsurum fékk KA markmanninn Sigfús Karlsson og um tíma leit út fyrir að Gunnar Gíslason myndi ganga aftur í raðir KA manna. Um veturinn lék hann þó aðeins tvo leiki með handknattleiksliði KA, meiðsli komu í veg fyrir að þeir yrðu fleiri.

Jóhannes Bjarnason vippar yfir Guðmund HrafnkelssonJóhannes Gunnar Bjarnason vippar hér yfir Guðmund Hrafnkelsson

Keppnin í 1. deild 1986 hófst í október. KA tapaði þá illa fyrir Fram, 25-16. En heldur vænkaðist hagur strympu þegar þeir í næsta leik unnu FH á útivelli 29-27. Eftir þetta mátti öllum vera ljóst að KA menn voru til alls líklegir. Í 5. umferð stöðvuðu þeir sigurgöngu Breiðabliks sem ekki hafði tapað stigi í fjórum fyrstu leikjum sínum í mótinu. Kópavogsbúarnir voru með forystu nær allan leikinn. Það tók KA 10 mínútur að skora sitt fyrsta mark en piltarnir létu ekki deigan síga og þegar aðeins um hálf mínúta var eftir tókst hornamanninum Axel Björnssyni að jafna fyrir KA 24-24, og það urðu lokatölur leiksins.

Þá settu KA menn markamet í deildinni þegar þeir sigruðu Fram 34-26. Og Eggert Tryggvason fékk orð á sig fyrir að vera öruggasta vítaskytta 1. deildarinnar. Í mars varð KA Akureyrarmeistari eftir harða baráttu við Þór sem þetta sama vor tryggði sér sæti í 1. deild. Og þegar reikningarnir voru gerðir upp í apríl reyndist handknattleikslið KA vera statt um miðja deild.

1. deildarlið KA í handknattleik 1986-1987
1. deildarlið KA í handknattleik 1986-1987. Aftari röð frá vinstri: Brynjar Kvaran, þjálfari, Anton Pétursson, Jón Kristjánsson, Svanur Valgeirsson, Guðmundur Guðmundsson, Eggert Tryggvason, Friðjón Jónsson, Axel Björnsson, Þorleifur Ananíasson, liðsstjóri. Fremri röð: Hafþór Heimisson, Halldór Jóhannsson, Pétur Bjarnason, Jóhannes Bjarnason, Ágúst Sigurðsson, Sigfús Karlsson. Ljósmynd Norðurmynd.

4. flokkur KA 1987
4. flokkur KA 1987. Höfnuðu í 6. sæti á Íslandsmótinu. Aftari röð frá vinstri: Jóhannes Bjarnason, þjálfari, Jón Árnason, Ingólfur Valdimarsson, Björn Sigbjörnsson, Jón Egill Gíslason, Karl Karlsson, Baldur Jóhannsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Ægir Dagsson, Karl Pálsson, Ingvar Jóhannsson. Fremri röð: Kjartan Pálmason, Ásgeir Ólafsson, Guðmundur Guðmundsson, Birgir Friðriksson, Bragi Guðmundsson, Örvar Erlendsson, Arnar Arngrímsson, Höskuldur Þórhallsson, Halldór Jóhannsson. Ljósmynd Dagur.

1967-1980 << Framhald >> 1988-1992

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is