Baráttusigur Þórs/KA í Krikanum

Fótbolti
Baráttusigur Þórs/KA í Krikanum
Áfram hafa stelpurnar í Þór/KA fullt hús!

Kvennalið Þórs/KA vann í kvöld mikinn baráttusigur á FH í Kaplakrika en sigurmark undir lok leiksins tryggði öll stigin eftir erfiðan leik.

FH 0 - 1 Þór/KA
0-1 Karen María Sigurgeirsdóttir ('89)

Það má með sanni segja að leikurinn hafi ekki verið opinn og var lítið um færi þó okkar lið hafi verið sterkari aðilinn lengst af. Heimastúlkur voru greinilega búnar að fara vel yfir spilamennsku okkar liðs og vörðust af krafti.

Ekki hjálpaði það liðunum að aðstæður voru erfiðar en það rigndi töluvert og þá var kröftugur vindur einnig. En þrátt fyrir erfiðar aðstæður þá var spilamennska Þórs/KA ekki nægilega góð og var mikið um feilsendingar. Þegar leið á síðari hálfleikinn náði FH liðið ágætis tökum á leiknum og voru líklegri þó að þær hafi ekki skapað sér mikið.

Það var svo á 89. mínútu þegar Margrét Árnadóttir átti laglega sendingu út á kant þar sem Hulda Björg Hannesdóttir kom, setti boltann fyrir markið og þar lúrði Karen María Sigurgeirsdóttir og skallaði boltann í netið.

Mjög dýrmætur sigur í höfn en liðið slapp með skrekkinn og vonandi að Donni og stelpurnar farið vel yfir þennan leik enda var þetta slakasti leikur liðsins til þessa. En stigin komu öll og Þór/KA er því áfram á toppnum með fullt hús og það þegar deildin er hálfnuð, stórkostlegur árangur!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband