Tap gegn Breiðablik

Fótbolti
Tap gegn Breiðablik
Emil Lyng skoraði 2 mörk í dag.

KA tapaði í dag gegn Breiðablik í 12. umferð Pepsi-deildarinnar 2-4 eftir að hafa verið 2-1 yfir í hálfleik.

KA 2 – 4 Breiðablik
0 - 1 Gísli Eyjólfsson (‘3)
1 - 1 Emil Lyng (’26) Stoðsending: Almarr
2 - 1 Emil Lyng (’31) Stoðsending: Ásgeir
2 - 2 Martin Lund Pedersen (’47)
2 - 3 Damir Muminovic (’59)
2 - 4 Aron Bjarnason (’87)

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Davíð Rúnar, Callum, Darko, Aleksandar, Almarr, Hallgrímur Mar, Steinþór Freyr, Emil Lyng og Ásgeir.

Bekkur:

Aron Dagur, Ólafur Aron, Elfar Árni, Ívar Örn, Daníel, Archange og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Ásgeir út – Elfar Árni inn (’60)
Hrannar Björn út – Daníel inn (’78)
Davíð Rúnar út – Ívar Örn inn (’91)

KA hóf leikinn í dag líkt og síðustu tvo heimaleiki. Ekki nægilega vel. Gestirnir úr Kópavogi voru töluvert betri á upphafsmínútum leiksins og skoruðu þeir verðskuldað mark á þriðju mínútu leiksins.

Höskuldur Gunnlaugsson átti þá góðan sprett upp að endamörkum og gaf fyrir markið þar sem Gísli Eyjólfsson var vel staðsettur og þrumaði boltanum í markið af stuttu færi og kom Blikum yfir.

En leikmenn KA komu til baka líkt og fyrr í sumar. Eftir 26 mínútna leik átti Almar magnaða sendingu á Emil Lyng sem skallaði boltann í netið af stuttu færi og jafnaði metin fyrir KA.

Aðeins fimm mínútum síðar var Emil aftur á ferðinni en þá var Ásgeir útsjónasamur og átti frábæra sendingu út fyrir teiginn þar sem Emil kom á ferðinni og afgreiddi boltann af stóískri ró í markið framhjá Gunnleifi í marki Blika.

Eftir síðari markið var meira jafnræði með liðunum og sóttu þau á hvort annað til skiptis en KA var ívið meira með boltann en staðan í hálfleik 2-1.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri gestirnir í Breiðablik með öll völd á upphafsmínútunum og skoruðu þeir eftir tæpa mínútu í síðari hálfleik. Höskuldur átti þá aftur góða sendingu inn fyrir vörn KA þar sem Martin Lund Pedersen stakk varnarmenn KA af og skoraði framhjá Rajko. Tók ekki langan tíma fyrir gestina að jafna metin og sofandaháttur í leikmönnum KA að fá þetta mark á sig.

Eftir markið var jafnfræði með liðunum en á 59. mínútu fengu gestirnir aukaspyrnu sem Höskuldur tók og var hún á fjærstöngina þar sem Damir Muminovic náði til boltans á undan Rajko og Davíð og kom honum í netið og Blikar því komnir yfir aftur. Tvö mörk með skömmu millibili hjá gestunum sem fóru greinilega vel yfir leik sinn í hálfleik.

KA liðið sótti aðeins eftir markið en það vantaði töluvert upp á til að ná jöfnunarmarkinu og voru gestirnir í Blikum þéttir í vörninni og agaðir í leik sínum. Það var svo á 87. mínútu sem Blikar gerðu út um leikinn í góðri skyndisókn eftir að lið KA var lengi að koma sér til baka. Þar var sem fyrr Höskuldur Gunnlaugsson arkitektinn að markinu en hann gaf boltann á Aron Bjarnason sem lagði boltann fyrir sig við teiginn og skoraði framhjá Rajko og við markið rann leikurinn út í sandinn og urðu 2-4 lokatölur leiksins.

Nivea KA-maður leiksins: Emil Lyng (skoraði tvö mörk og var líflegur í sóknarleik KA í dag.)

Næsti leikur KA er ekki fyrr en 5. ágúst á laugardeginum um Verslunarmannahelgina þegar að við fáum Íslandsmeistara FH til okkar í heimsókn. Sá leikur hefst kl. 16.00 og vonumst við til þess að sjá sem flesta mæta á þann leik og styðja KA til sigurs!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband