Öruggur sigur KA suður með sjó

Fótbolti
Öruggur sigur KA suður með sjó
Ásgeir stóð í ströngu í dag (mynd: Þ.Tr)

KA sótti botnlið Keflavíkur heim í 16. umferð Pepsi deildar karla í dag en Keflvíkingar hafa verið í miklum vandræðum í sumar og voru fyrir leikinn án sigurs. FH tapaði fyrr í dag gegn ÍBV og KA gat því með sigri komið sér aðeins stigi frá FH í baráttunni um 4. sætið.

Keflavík 0 - 3 KA
0-1 Elfar Árni Aðalsteinsson ('23, víti)
0-2 Ásgeir Sigurgeirsson ('30)
0-3 Elfar Árni Aðalsteinsson ('57, víti)

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og virtust staðráðnir í að sækja fyrsta sigur sumarsins og freista þess að halda lífi í veru sinni í efstu deild. Keflvíkingum hefur gengið ákaflega illa að skora í sumar og það breyttist ekki í dag. Fyrsta markið kom á 23. mínútu þegar Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði úr víti eftir að Sindri Kristinn markvörður Keflavíkur hafði brotið klaufalega á Vladimir Tufegdzic.

Strax á eftir var Elfar Árni næstum því búinn að tvöfalda forystuna eftir flotta fyrirgjöf frá Milan Joksimovic en skalli Elfars fór í stöngina og út. Við þurftum þó ekki að bíða lengi eftir næsta marki en það kom á 30. mínútu þegar Ásgeir Sigurgeirsson fékk boltann við teiginn, lék á varnarmann og þrumaði knettinum svo af öryggi í netið.

Staðan orðin 0-2 og botninn datt svolítið úr leiknum í kjölfarið, mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleiknum og útlitið ansi gott fyrir þann síðari. Staðan varð enn betri snemma í síðari hálfleikur þegar Ásgeir sem hafði leikið á markvörð Keflavíkur og var í þann mund að skora í autt markið var tæklaður og vítaspyrna dæmd. Aftur steig Elfar Árni á punktinn og skoraði af öryggi.

Lítið markvert gerðist eftir markið og KA sigldi öruggum 0-3 sigri í höfn. Ákaflega mikilvæg 3 stig í hús og liðið komið með 22 stig sem á að duga til að halda sæti sínu í deildinni. Við ættum því að geta hætt að horfa niður fyrir okkur og stefna nú eins hátt og við getum í þessari jöfnu og spennandi deild.

Nivea KA-maður leiksins Ásgeir Sigurgeirsson (Eins og svo oft áður gaf Ásgeir allt í leikinn, hljóp gríðarlega mikið og gaf heimamönnum ekkert. Skoraði virkilega gott mark og sótti vítaspyrnu, erfitt að líta framhjá hans framlagi í dag.)

Virkilega flott frammistaða gegn hættulegum andstæðing. KA liðið kemur sér með sigrinum aftur af krafti inn í baráttuna um 4. sætið en þar sitja nú KR-ingar en þeir eru einmitt næstu andstæðingar okkar á Greifavellinum sunnudaginn næsta. Nú er ekkert annað í stöðunni en að taka hann frá og styðja strákana okkar sem eru búnir að vera frábærir að undanförnu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband