Þór/KA lagði Stjörnuna sannfærandi

Fótbolti
Þór/KA lagði Stjörnuna sannfærandi
Söndrurnar skoruðu báðar í kvöld (mynd: Þórir Tr)

Kvennalið Þórs/KA vann í kvöld frábæran 3-0 sigur á Stjörnunni á Þórsvelli en á sama tíma vann Breiðablik lið ÍBV þannig að það er enn barátta um Íslandsmeistaratitilinn þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni.

Þór/KA 3 - 0 Stjarnan
1-0 Sandra María Jessen ('12)
2-0 Sandra Mayor ('38)
3-0 Hulda Ósk Jónsdóttir ('86)

Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið enda gátu okkar stelpur með sigri og hagstæðum úrslitum landað Íslandmeistaratitlinum á sama tíma og Stjörnustúlkur eru í harðri baráttu um 2. sætið í deildinni.

Ekki voru aðstæðurnar á vellinum þær bestu enda hafði rignt mikið á Akureyri yfir daginn en þrátt fyrir gríðarlega bleytu og polla á vellinum var ákveðið að leiktíminn skyldi halda sér. Það var því ljóst að það yrði smá barátta hjá leikmönnum að fóta sig á vellinum.

Þrátt fyrir það þá tók það aðeins 12 mínútur að fá fyrsta markið í leikinn og það gerði Sandra María Jessen eftir góðan undirbúning hjá Söndru Mayor. Frábær byrjun og létti strax á pressunni á okkar liði en alls voru yfir 700 áhorfendur mættir til að styðja stelpurnar sem er algjörlega frábært.

Stelpurnar héldu áfram að sækja næstu mínútur og greinilegt að þær ætluðu sér að ganga frá leiknum. Það gekk hinsvegar ekki og gestirnir komu sér betur inn í leikinn og áttu nokkur hættuleg færi. Það var gríðarleg barátta það sem eftir lifði af hálfleiknum og bæði lið sóttu af krafti.

Sandra Mayor eða Borgarstjórinn eins og flestir kalla hana tvöfaldaði forystuna á 38. mínútu þegar hún kláraði listilega í stöng og inn eftir klafs í teignum. Stelpurnar komnar í frábæra stöðu en greinilega búnar að læra af síðasta leik þar sem liðið missti tveggja marka forystu niður í tap og héldu áfram að sækja grimmt.

Hálfleikstölur því 2-0 og ljóst að gestirnir höfðu engu að tapa í þeim síðari, enda hófu þær síðari hálfleikinn af krafti á meðan að Þór/KA voru passífari, sem betur fer tókst þeim ekki að nýta færin sín og okkar stelpur komu sér betur í gang þegar leið á hálfleikinn.

Stjörnustúlkur náðu reyndar að koma boltanum í netið þegar 20 mínútur lifðu leiks en eftir mikla rekistefnu var Donna Key réttilega dæmd brotleg þar sem að hún hafði slegið boltann í netið. Markið því dæmt af og Donna uppskar gult spjald, furðulegt atvik svo ekki sé meira sagt sérstaklega þar sem að það tók dómara leiksins töluverðan tíma að komast að niðurstöðu!

Eins og oft í sumar þá fóru stelpurnar að drepa niður tempóið í leiknum og gerðu það vel á sama tíma var kominn þó nokkur pirringur í gestina. Það var því útlit fyrir að ekki yrðu fleiri mörk skoruð í leiknum en Hulda Ósk Jónsdóttir var sko ekki á þeirri skoðun. Skömmu fyrir leikslok þrumaði hún boltanum stórglæsilega upp í skeytin og lokastaðan því 3-0!

Frábær sigur staðreynd á ríkjandi Íslandsmeisturunum en stelpurnar unnu einmitt báða deildarleikina gegn Stjörnunni. Nú þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni hafa stelpurnar 5 stiga forskot á Breiðablik og því ljóst að sigur í næstu umferð gegn Grindavík gerir stelpurnar að Íslandsmeisturum en sá leikur fer fram 23. september í Grindavík.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband