Frábær endurkoma Þórs/KA gegn Fylki

Fótbolti
Frábær endurkoma Þórs/KA gegn Fylki
Söndrurnar skoruðu mörkin í kvöld (mynd: Þórir Tr)

Topplið Þórs/KA tók á móti Fylki í kvöld í 12. umferð Pepsi deildar kvenna. Þrátt fyrir mikinn mun á stöðu liðanna í deildinni mátti búast við hörkuleik og það varð svo sannarlega raunin.

Þór/KA 3 - 3 Fylkir
1-0 Sandra Mayor ('41, víti)
1-1 Kaitlyn Johnson ('43)
1-2 Kaitlyn Johnson ('44)
1-3 Caragh Milligan ('51)
2-3 Sandra María Jessen ('86)
3-3 Sandra Mayor ('89)

Það var ljóst strax í upphafi að lið Fylkis var mætt norður til að gefa sig allt í leikinn og sluppu okkar stelpur með skrekkinn þegar boltinn fór í slánna og þá komst Kaitlyn Johnson ein í gegn en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir í marki Þórs/KA gerði vel og handsamaði boltann.

Okkar lið kom sér betur í leikinn og úr varð hin ágætasta skemmtun þar sem bæði reyndu hvað þau gátu að ná forystunni. Það var svo á 41. mínútu að Sandra María Jessen var felld innan teigs og nafna hennar Mayor skoraði af öryggi úr vítinu og önduðu margir léttar.

En gestirnir létu markið sko ekki stoppa sig og þegar einungis tvær mínútur voru liðnar frá marki Söndru Mayor var staðan orðin 1-2. Fyrst voru mistök í vörninni sem Fylkisstúlkur nýttu sér vel og Kaitlyn Johnson skoraði af stuttu færi og hún var aftur á ferðinni þegar hún skoraði uppúr hornspyrnu.

Hálfleikstölur voru því 1-2 og ljóst að það þyrfti að gera betur í þeim síðari en varnarleikurinn sem hefur verið aðalsmerki Þórs/KA liðsins í sumar var ekki nógu beittur.

Það leið ekki á löngu uns forskot gestanna tvöfaldaðist en Caragh Milligan slapp ein í gegnum vörnina og skoraði af öryggi. Staðan orðin ansi erfið og væntanlega hafa hin liðin í toppbaráttu brosað út í annað yfir stöðunni.

En stelpurnar okkar hafa ekki verið þekktar fyrir að gefast upp og í kjölfarið sóttu þær af miklum krafti. Fylkisstúlkur vörðust hinsvegar vel og lengi vel leit út fyrir að þær myndu ná að sigla sigrinum heim.

Sandra María minnkaði muninn á 86. mínútu þegar hún skoraði af stuttu færi eftir skallasendingu frá Söndru Mayor. Markið gríðarlega mikilvægt enda enn tími til stefnu og greinilegur skjálfti fór um Fylkisstúlkur sem höfðu gert svo vel í leiknum til þessa.

Jöfnunarmarkið lá í loftinu og það kom á 89. mínútu þegar Sandra María fékk flotta sendingu inn í teig, þar lagði hún boltann út á Söndru Mayor sem gat ekki annað en skorað og staðan skyndilega orðin 3-3. Stelpurnar reyndu hvað þær gátu að finna sigurmarkið en það kom ekki og jafntefli því niðurstaðan.

Vissulega fúlt að ná ekki sigri í dag en úr því sem komið var er stigið algjörlega frábært. Enn er nóg eftir af deildinni og ljóst er að stelpurnar þurfa aftur að finna betri takt í varnarleiknum ef að þær ætla sér að halda toppsætinu sem þær hafa haldið í allt sumar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband