Grátlegt tap Þór/KA gegn Stjörnunni

Fótbolti
Grátlegt tap Þór/KA gegn Stjörnunni
Ekki var lukkan í liði með stelpunum í kvöld

Kvennalið Þórs/KA tók á móti toppliði Stjörnunnar í kvöld í 10. umferð Pepsi deildarinnar. Fyrir leikinn munaði 5 stigum á liðunum og var ljóst að með sigri myndi Þór/KA blanda sér allhressilega inn í toppbaráttuna.

Þór/KA 1 - 2 Stjarnan
1-0 Hulda Ósk Jónsdóttir ('10)
1-1 Ana Victoria Cate ('29)
1-2 Harpa Þorsteinsdóttir ('74)

Stelpurnar byrjuðu leikinn af miklum krafti og var greinilegt að þær ætluðu sér að ná marki snemma. Það bar svo sannarlega ávöxt því að strax á 10. mínútu komst Sandra María Jessen upp að endamörkum þar sem hún kom boltanum fyrir markið og Hulda Ósk Jónsdóttir setti hann laglega í netið. Staðan orðin 1-0 og það ansi sanngjarnt.

Gestirnir komu sér hinsvegar betur inn í leikinn og úr varð ansi fjörugur og spennandi leikur. Jöfnunarmarkið kom á 29. mínútu sem var svolítið klaufalegt en Ana Victoria Cate fékk boltann á endanum í sig og boltinn lak í netið.

Áfram héldu bæði lið að leita að næsta marki og rétt fyrir hálfleikinn var Sandra María felld innan teigs en ekkert var dæmt og staðan var því 1-1 í hléinu. Síðari hálfleikurinn var aðeins rólegri til að byrja með en þegar líða fór á hann fóru okkar stelpur að blása allhressilega til sóknar enda þurftu þær sigur.

Á 66. mínútu féll Sandra Stephany í teignum en eins og þegar nafna hennar féll dæmdi dómarinn ekkert. Sandra Stephany átti svo gott skot stuttu síðar en inn vildi knötturinn ekki.

Fótboltinn getur verið grimmur og úr varð að gestirnir skoruðu þegar Agla María sendi fyrir frá vinstri og Harpa Þorsteinsdóttir skallaði upp í fjærhornið. Ansi erfitt að kyngja þessu marki enda höfðu okkar stelpur verið líklegri og svo fór að Stjörnustelpur unnu 1-2.

Á sama tíma unnu Breiðablik, Valur og ÍBV sína leiki þannig að á sama tíma og toppliðin færðust þremur stigum frá okkar liði þá minnkaði munurinn á liðið í 5. sæti niður í tvö stig. Grátleg niðurstaða eftir annars magnaðan leik, en spilamennskan er sérstaklega góð þegar litið er til þess að liðið lék 120 mínútur á laugardaginn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband