Heimaleikur gegn Aftureldingu í dag, fimmtudag

Handbolti

Það er stutt á milli leikja í Olís-deildinni þessa dagana og nú er komið að heimaleik gegn Aftureldingu úr Mosfellsbænum. Enginn velkist í vafa um að þar verður hart tekist á, Akureyri búið að leika þrjá hörkuleiki án þess að ná stigi út úr þeim. Mosfellingar eru komnir með fjögur stig í hús, töpuðu illa fyrir Selfyssingum í fyrstu umferð en knúðu fram magnaðan eins marks sigur á Haukum í annarri umferð. Á mánudaginn lögðu þeir síðan Fram að velli.

Liðin mættust tvisvar hér fyrir norðan á síðasta tímabili. Akureyri vann góðan fimm marka sigur í fyrri leiknum og klæjar örugglega í fingurna að endurtaka þann leik, við getum allavega lofað hörkuleik í KA heimilinu í dag.


Þrándur Gíslason í leik liðanna í fyrra, hann hefur nú lagt keppnisskóna á hilluna

Akureyri-TV
HSÍ sendir öllum liðum Olís-deildarinnar tilmæli um að sýna heimaleiki sína á netinu. Við brugðumst við og sýndum síðasta leik í beinni og stefnum á að það verði regla hjá okkur á tímabilinu. Nánari upplýsingar um útsendinguna verða á heimasíðu Akureyrar seinna í dag.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 í KA heimilinu en það er upplagt að mæta tímanlega á staðinn því fyrir leikinn verður hægt að ganga frá kaupum á ársmiðum (silfurkortum) og gullkortum fyrir tímabilið.

Athugaðu að HSÍ breytti nýlega tímasetningu allra heimaleikja Akureyrar á fimmtudögum og munu þeir hér eftir hefjast klukkan 19:00 en ekki 19:30 eins og stendur á kortunum.

Við vonumst til að sjá þig í KA heimilinu í dag!

Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband