Jafntefli hjá KA U og Víkingum U

Handbolti
Jafntefli hjá KA U og Víkingum U
Heimir Pálsson var markahæstur með 9 mörk

Ungmennalið KA og Víkings mættust í 2. deild karla í gærkvöldi. Meistaraflokkur KA hafði nýlokið tveim æfingaleikjum við Stjörnuna og voru því engir leikmenn úr þeirra hópi með Ungmennaliðinu í dag. Leikurinn fór rólega af stað og lítið skorað framan af, staðan jöfn 5-5 eftir fimmtán mínútna leik. Í kjölfarið tók KA liðið völdin á vellinum og sýndi oft á tíðum flottan leik. Þriggja marka forskot lengst af sem raunar varð mest fimm mörk 16-11 undir lok fyrri hálfleiks en með tveim síðustu mörkum hálfleiksins minnkuðu Víkingar muninn aftur í þrjú mörk, staðan 16-13 í hálfleik.

Heimir Pálsson fór hamförum í fyrri hálfleiknum með sjö mörk, þar af eitt úr vítakasti.

KA liðið hóf seinni hálfleikinn með því að ná aftur fimm marka forskoti en í stöðunni 20-16 virtist koma einhver værukærð yfir strákana. Til viðbótar fengu þeir fjölmargar brottvísanir sem Víkingar nýttu sér og náðu að jafna í stöðunni 21-21 þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Víkingar gerðu gott betur því þeir komust tveim mörkum yfir í stöðunni 23-25 og aftur 24-26. En heimamenn jöfnuðu í lokin 26-26 og fengu tækifæri í síðustu sókninni til að krækja í sigurinn. Það tókst því miður ekki og jafntefli því niðurstaðan sem var frekar súrt fyrir KA liðið eftir að hafa verið mun betri aðilinn lengst af leiksins.

Mörk KA U: Heimir Pálsson 9 (2 úr vítum), Jóhann Einarsson 6, Kristján Garðarsson 5, Arnór Haddsson 3, Jón Heiðar Sigurðsson (yngri) 2 og Brynjar 1 mark.
Í markinu varði Svavar Ingi Sigmundsson 12 skot auk þess sem Magnús Orri kom inná í lokin og varði eitt.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband