KA fékk Hauka í Mjólkurbikarnum

Fótbolti
KA fékk Hauka í Mjólkurbikarnum
Úr leik liðanna sumarið 2016 (mynd: Sævar Geir)

Í hádeginu var dregið í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla en keppnin hefur undanfarin ár verið þekkt sem Borgunarbikarinn. KA liðið fékk útileik gegn Haukum en Haukar leika í Inkasso deildinni í sumar.

Haukar slógu út Vestra í síðustu umferð með 3-1 sigri þar sem Daði Snær Ingason, Arnar Aðalgeirsson og Birgir Þór Þorsteinsson gerðu mörk Hauka. Þar sem KA leikur í efstu deild hefur KA setið hjá í keppninni til þessa.

Liðin mættust síðast sumarið 2016 þegar liðin léku bæði í Inkasso deildinni, KA vann öruggan sigur í deildinni og tapaði einungis þremur leikjum það sumarið. Tvö af þeim töpum komu einmitt gegn Haukum og því ljóst að KA þarf að gera betur til að komast áfram í næstu umferð.

Áætlað er að leikirnir í 32-liða úrslitunum fari fram dagana 30. apríl, 1. maí og 2. maí


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband