KA sækir Valsara heim á morgun

Almennt
KA sækir Valsara heim á morgun
Elfar Árni skorar gegn Val í fyrra (mynd: Þ.Tr)

Baráttan í Pepsi deildinni heldur áfram og á morgun sækir KA Íslandsmeistara Vals heim að Hlíðarenda. Leikurinn hefst klukkan 17:00 og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á svæðið og styðja okkar lið til sigurs.

KA vann frábæran 4-1 sigur á Víking í síðustu umferð og er því komið með 8 stig eftir 7 leiki. Valsarar eru hinsvegar með 12 stig og hafa unnið síðustu tvo leiki sína.

Liðin mættust tvívegis í Pepsi deildinni í fyrra, Valur vann 1-0 sigur á Hlíðarenda í jöfnum leik þar sem sjálfsmark Darko Bulatovic skildi liðin að. Í leik liðanna á Akureyrarvelli kom Elfar Árni Aðalsteinsson KA í 1-0 og var KA sterkari aðilinn í leiknum, hinsvegar tókst KA ekki að bæta við marki og Guðjón Pétur Lýðsson tryggði gestunum 1-1 jafntefli.

Það má búast við mörgum stuðningsmönnum KA á leiknum og það er um að gera að mæta og taka þátt í gleðinni. Tufa þjálfari var í viðtali í KA Podcastinu í gær og ræddi þar meðal annars um leikinn gegn Val og hvetjum við ykkur til að hlusta á þetta skemmtilega spjall við okkar frábæra þjálfara.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband