KA sótti tvö stig í Valsheimilið á laugardaginn

Handbolti
KA sótti tvö stig í Valsheimilið á laugardaginn
Dagur Gautason með prýðisleik og sjö mörk

Ófærðin um helgina setti strik í reikninginn hjá ýmsum og varð til þess að færa þurfti leik Ungmennaliðs Vals og KA í Grill 66 deild karla frá föstudegi yfir á laugardag. Í þéttskipaðri dagskrá geta slíkar óhjákvæmilegar breytingar haft margvísleg áhrif. Þannig varð ekkert af fyrirhugaðri útsendingu KA-TV frá leiknum auk þess sem einn af mikilvægari leikmönnum liðsins, Jón Heiðar Sigurðsson var bundinn í öðru verkefni og því ekki með í hóp.

KA liðið átti ekki sinn besta dag í þessum leik en hafði þó þriggja marka forystu í hálfleik 9-12. Barningurinn hélt áfram í seinni hálfleik, KA ávallt með forystuna þó að Valsmenn væru alltaf skammt undan. Þegar upp var staðið skildu tvö mörk að og KA liðið gat fagnað dýrmætum sigri 23-25.

Mörk KA: Dagur Gautason 7, Aki Egilsnes 6, Sigþór Gunnar Jónsson 5, Andri Snær Stefánsson 3, Sigþór Árni Heimisson 2, Elfar Halldórsson 1 og Ólafur Jóhann Magnússon 1 mark.

Mörk Vals U: Arnór Snær Óskarsson 8, Sveinn José Rivera 6, Egill Magnússon 5, Gísli Gunnarsson 2, Ásgeir Snær Vignisson 1 og Þorgils Jón Svölu Baldursson 1 mark.

Þetta var síðasti leikur KA liðsins í fyrri umferð deildarinnar og situr liðið á toppi deildarinnar með fullt hús, 18 sig eftir níu leiki. Þar á eftir koma Akureyri með 14 stig eftir átta leiki og HK með 12 stig eftir níu leiki.

Næsta verkefni KA liðsins er enn einn krefjandi útileikurinn þann 8. desember þegar liðið heldur til Vestmannaeyja og mætir þar Ungmennaliði ÍBV.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband