KA vann Þór og hampaði bikarnum

Fótbolti
KA vann Þór og hampaði bikarnum
Strákarnir sigldu bikarnum heim!

Það var Akureyrarslagur í úrslitum bikarkeppni Norður-Austurlands í 3. flokki karla í dag þegar KA tók á móti Þór á KA-vellinum. Liðin höfðu ekki mæst í sumar en KA lék í A-deildinni á sama tíma og Þórsarar léku í C2-deildinni. Það var því eðlilega mikil spenna í loftinu enda montrétturinn og bikar í húfi.

KA 1 - 0 Þór
1-0 Gunnlaugur Rafn Ingvarsson ('16)

Þórsararnir hófu leikinn betur og pressuðu töluvert á KA liðið sem varðist vel. Þórsarar fengu þó nokkrar hornspyrnur en gekk erfiðlega að fá færi úr þeim. Það var því aðeins gegn gangi leiksins þegar Gunnlaugur Rafn Ingvarsson skoraði opnunarmarkið fyrir KA eftir fyrirgjöf frá Elías Franklín Róbertssyni.

KA því komið í 1-0 og í kjölfarið tók okkar lið betri stjórn á leiknum. Leikurinn einkenndist af mikilli stöðubaráttu og var lítið um færi. Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik og KA leiddi því í hléinu.

Síðari hálfleikur spilaðist svo svipað og hvernig þeim fyrri lauk. KA stýrði leiknum en Þórsarar voru nokkrum sinnum við það að skapa sér eitthvað en varnarleikur KA var sterkur og Arnór Ísak Haddsson í markinu greip allt sem kom í nágrenni við hann.

KA liðið sigldi á endanum sigrinum frekar þægilega í hús og strákarnir eru því Bikarmeistarar Norður-Austurlands og var mikil gleði er bikarinn fór á loft að leik loknum. Við óskum strákunum til hamingju með glæsilegan árangur!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband