KR lagði KA að velli 2-0

Fótbolti

Það var enginn smá leikur í Pepsi deild karla í dag þegar KA sótti KR-inga heim í Frostaskjól. Bæði lið voru ósátt með stigasöfnun sína í deildinni til þessa og það voru því mikilvæg stig í boði og úr varð fínn leikur þar sem bæði lið sóttu til sigurs.

KR 2 - 0 KA
1-0 Björgvin Stefánsson ('44)
2-0 Kennie Chopart ('57)

Aron Elí Gíslason lék aftur í marki KA en hann hélt hreinu gegn Keflavík í síðasta leik þegar Cristian Martinez fékk heilahristing fyrir leik og hefur ekki náð fullri heilsu. Milan Joksimovic tók sér stöðu á bekknum í fyrsta skiptið í sumar en hann meiddist illa á undirbúningstímabilinu.

Bæði lið fóru varfærnislega af stað og þreifuðu fyrir sér en aðstæður voru svolítið krefjandi í rigningu og roki í Vesturbænum. KA liðið kom sér nokkrum sinnum í ágætisskotfæri en Beitir Ólafsson í marki KR átti ekki í miklum vandræðum með tilraunir okkar liðs.

Besta færi fyrri hálfleiks fékk Hallgrímur Mar Steingrímsson þegar hann nýtti sér mistök í vörn KR og slapp í gegn en skot hans var ekki nægilega gott og fór beint á Beiti. Stuttu síðar fengu KR-ingar úrvalsfæri þegar boltinn barst á Kennie Chophart en Aron Elí kom mjög vel á móti honum og varði meistaralega.

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var KA sterkari aðilinn og skapaði í nokkur skipti þó nokkra hættu upp við mark heimamanna án þess þó að koma boltanum í netið. En KR er með hörkulið og þeir skoruðu fyrsta mark leiksins skömmu fyrir hálfleik þegar Björgvin Stefánsson fékk boltann í teignum og hann hafði nægan tíma til að renna honum framhjá Aroni í markinu og var staðan 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Tufa ákvað að bregðast við stöðunni með skiptingu í hálfleik þegar hann tók Guðmann Þórisson út og setti Steinþór Frey Þorsteinsson inná, fyrir vikið fór Aleksandar Trninic í miðvörðinn. Það var því alveg ljóst að KA ætlaði sér allavega stig í dag.

Það var því ansi mikið áfall þegar heimamenn tvöfölduðu forystu sína með marki á 57. mínútu en André Bjerregaard átti góða sendingu út í teiginn á Kennie Chophart sem renndi boltanum í netið af öryggi.

KA liðið hefur þó aldrei verið þekkt fyrir að gefast upp og var jákvætt að sjá að þrátt fyrir að staðan væri orðin erfið héldu menn áfram hvort sem það var inná vellinum eða í stúkunni en KA liðið var dyggilega stutt áfram af KA mönnum sunnan heiða sem og þeim sem gerðu sér ferð suður til að sjá leikinn.

Þrátt fyrir ágætis baráttu þá gekk mjög erfiðlega að opna KR vörnina, helsta hættan skapaðist þegar KA fékk tvívegis aukaspyrnu rétt fyrir utan teig heimamanna þegar um kortér lifði leiks en Hallgrímur Mar og Aleksandar settu báðar spyrnurnar í varnarvegginn.

Á 83. mínútu var Ásgeir Sigurgeirsson við það að sleppa í gegn en rétt áður en hann náði skoti á markið komust heimamenn fyrir hann og úr varð hornspyrna. Ásgeir kom svo boltanum í netið með skalla á lokasekúndum venjulegs leiktíma en var dæmdur rangstæður. Markið sem KA þurfti til að koma sér almennilega inn í leikinn á ný kom því miður aldrei, KR-ingar vörðust vel og sigldu 2-0 sigri í hús.

Það er alveg ljóst að þessi byrjun á sumrinu er alls ekki það sem liðið ætlaði sér en sem betur fer þá hefur deildin farið gríðarlega jafnt af stað og þrátt fyrir að stigasöfnunin sé ekki eins og við vorum að vonast eftir þá eru hlutirnir fljótir að breytast ef úrslitin fara að detta með okkar liði.

Næsti leikur er einnig virkilega stór en það er útileikur gegn FH í Kaplakrika í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudaginn. Sá leikur kemur á fínum tíma og gott að taka alvöru bikarslag og geta aðeins hætt að hugsa um stöðuna í deildinni. Að venju hvetjum við alla til að mæta á þann leik og styðja liðið okkar, þó á móti blási þá höldum við að sjálfsögðu áfram að styðja okkar lið og leiðin að bikarúrslitaleiknum er alls ekki löng.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband