Kveðja frá fráfarandi formanni

Almennt

Ég er að hætta nú sem formaður eftir 8 ára starf. Ég hef verið 20 ár í aðalstjórn og unnið fyrir félagið okkar sem sjálfboðaliði í 44 ár.
Ég er samt ekki að hætta að vinna fyrir félagið, því mun ég halda áfram á meðan menn vilja hafa mig.

Ég vil byrja á því að óska nýjum formanni og aðalstjórn góðs gengis með þau verkefni sem framundan eru.

Mig langar til að þakka fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt með því að kjósa mig til formanns öll þessi ár. Það er heilmikið starf að vera formaður þessa stóra félags, ég hef t.d. ekki farið í sumarfrí á 8 ár því þó ég væri ekki í bænum þá voru síminn og tölvupóstur alltaf tiltæk, en það er líka mjög gefandi að vera formaður KA. Það hafa skipst á bæði skin og skúrir en björtu stundirnar eru svo margfalt fleiri.

Það eru auðvitað blendnar tilfinningar sem bærast með mér og ég veit að ég mun sakna starfsins. Þegar ég fór að velta fyrir mér að hætta, sá ég að það var annaðhvort að gera það núna eða halda áfram og bjóða mig fram til formanns í það minnsta í fimm ár því verkefnin framundan eru slík að það væri ekki gott fyrir félagið að hætta í miðju kafi.

Þegar ég var beðin um að taka að mér formennsku í félaginu sagði ég, eftir margra daga umhugsun, að ég skildi taka þetta að mér í eitt ár. Þetta eina ár varð að átta.

Félagið hefur stækkað og blómstrað á þessum 8 árum, eiginlega sprungið út. Deildir hafa bæst við og flokkar og svo hefur reksturinn gengið vel þar til á þessu ári, það eru meðal annars vaxtaverkir sem við munum vinna á.

Ég man eftir því að eitt það fyrsta sem ég sagði við Sævar þegar hann var ráðinn framkvæmdastjóri að ég vildi fá líf í félagið, að ég vildi sjá líf í KA heimilinu. Þetta tókst smám saman, gervigrasið gerði ótrúlega mikið fyrir okkur en það var ekki síður jákvætt viðmót gagnvart þeim sem hingað komu sem varð til þess að fleiri komu hingað inn. Við fórum í breytingar á félagsheimilinu sem gerði sitt líka og svo salurinn stóri sem við tókum í gegn þar sem ýmsar skemmtanir og annað hafa verið haldnar, t.d. afmælin með svignandi kökuhlaðborðum sem haldin hafa verið í kringum afmæli félagsins þann 8. janúar.

Mér fannst hátíðarafmælisveislan okkar, þann 13. janúar sl. þar sem mættu 500 manns til að fagna 90 ára afmæli félagins bera vott um samstöðu í félaginu en einnig bera vott um hve vænt fólki þykir um félagið sitt.

Ég þakka af alhug fyrir alla þá vini sem ég hef eignast þessi ár mín hjá KA. Ég þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem komið hafa að allskyns störfum þessi ár, starfsfólki hússins og starfsfólki á skrifstofu fyrir gott samstarf, framkvæmdastjóra KA fyrir frábært samstarf og síðast en ekki síst aðalstjórn fyrir einstaklega gott samstarf. Aðalstjórn hefur staðið þétt saman öll þessi ár og er það mikils virði að vinna með slíku fólki.

Ég þakka aftur kærlega fyrir mig, það eru forréttindi að hafa verið kjörin öll þessi ár sem formaður KA.

Áfram KA


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband