Markalaust jafntefli á Selfossi hjá Þór/KA

Fótbolti
Markalaust jafntefli á Selfossi hjá Þór/KA
Selfyssingar lokuðu á Söndru Mayor í dag

Þór/KA mætti til Selfoss í fyrsta leik sínum eftir landsleikjahlé og mætti þar heimastúlkum en fyrir leikinn var okkar lið með fullt hús stiga á toppi deildarinnar á meðan Selfoss var í því 6. með 4 stig. Þrátt fyrir að stigin séu ekki fleiri hjá Selfyssingum þá hefur liðið verið að koma til og fékk í hléinu nokkrar stelpur sem eru í háskólaboltanum.

Selfoss 0 - 0 Þór/KA

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að heimastúlkur ætluðu að selja sig dýrt og höfðu þær ekkert á móti því að liggja í vörn og einbeita sér að því að verja stigið. Þór/KA stjórnaði leiknum en átti í nokkrum vandræðum með völlinn sem var rennandi blautur og þungur.

Það var lítið um færi í fyrri hálfleiknum og alveg ljóst að Donni hefur brýnt fyrir okkar liði í hálfleik að sýna þolinmæði og gera allt sem hægt væri til að opna varnarmúr heimastúlkna.

Síðari hálfleikur var opnari og fannst manni í raun bara spurning hvenær pressa Þórs/KA myndi ná að brjóta baráttuglatt lið Selfoss. En það gerðist ekki og áttu heimastúlkur meira að segja nokkrar stórhættulegar skyndisóknir.

Hvorugu liðinu tókst að setja mark á endanum og lokatölur því 0-0 jafntefli og fyrstu stigin sem okkar lið missir af í deildinni. Vissulega grautfúlt að hafa ekki náð að skora enda stjórnuðu stelpurnar leiknum að mestu. Næsti leikur er svo enginn smá slagur en það er heimaleikur gegn Breiðablik sem voru einmitt jafnar okkar liði fyrir umferðina á toppnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband