Risaleikur í Keflavík á þriðjudaginn

Fótbolti
Risaleikur í Keflavík á þriðjudaginn
Það verður hart barist um stigin í Keflavík

KA ferðast til Keflavíkur á morgun, þriðjudag, og mætir þar heimamönnum í lykilleik í 16. umferð Inkasso deildarinnar. Fyrir sumarið var báðum liðum spáð að fara upp í efstu deild en efstu tvö lið deildarinnar tryggja sér sæti meðal þeirra bestu.

Þegar sjö leikir eru eftir af deildinni situr KA í efsta sætinu með 32 stig á meðan Keflvíkingar eru í 3. sætinu með 25 stig. Það er því ljóst að þessi leikur er ótrúlega mikilvægur fyrir bæði lið ætli þau sér upp í efstu deild. Liðin gerðu 1-1 jafntefli þegar þau mættust á Akureyrarvelli fyrr í sumar þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson jafnaði fyrir KA í uppbótartíma með marki úr vítaspyrnu.

Með sigri væri KA liðið 10 stigum á undan Keflvíkingum þegar 18 stig eru eftir í pottinum og væri því komið í lykilstöðu. En hinsvegar hefur liðinu ekki gengið neitt sérstaklega vel gegn Keflavík á síðustu árum. Síðasti sigur liðsins í innbyrðisviðureignum liðanna kom 15. september árið 2002 þegar Hreinn Hringsson skoraði þrennu í 2-3 útisigri. Fyrr það sumarið vann KA heimaleik sinn gegn Keflavík 4-1 þar sem Þorvaldur Örlygsson skoraði magnað mark af 40 metra færi en Þorvaldur þjálfar einmitt Keflvíkinga í dag.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á leikinn í Keflavík en hann hefst klukkan 18:30 en fyrir ykkur sem ekki komist þá verður hann sýndur á Stöð 2 Sport, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband