Sannfærandi sigur KA á Fjölni

Fótbolti
Sannfærandi sigur KA á Fjölni
Danni gerði sitt fyrsta mark í Pepsi í kvöld

KA tók á móti Fjölni í kvöld í 11. umferð Pepsi deildar karla, þrátt fyrir fína spilamennsku í undanförnum leikjum þá var KA liðið án sigurs í síðustu þremur leikjum og var komið í botnbaráttu. Það voru því ansi mikilvæg stig í húfi fyrir okkar lið og á sama tíma fyrir gestina en með sigri gátu Fjölnismenn komist í þægilega stöðu og 6 stigum frá okkar liði.

KA 2 - 0 Fjölnir
1-0 Daníel Hafsteinsson ('14)
2-0 Ásgeir Sigurgeirsson ('25)

Strax frá fyrstu mínútu var greinilegt að bæði leikmenn og stuðningsmenn KA vissu hve mikilvægur leikur kvöldsins væri. Strákarnir tóku völdin á vellinum og stuðningurinn úr stúkunni var til fyrirmyndar.

Daníel Hafsteinsson gerði fyrsta mark leiksins á 14. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið eftir flotta hornspyrnu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni. Gestirnir komu sterkari inn í leikinn eftir markið en varnarlína okkar liðs var sterk og bauð ekki upp á miklar opnanir.

Ásgeir Sigurgeirsson tvöfaldaði svo forystuna þegar Cristian Martinez átti langa markspyrnu og Ásgeir gerði virkilega vel í að pressa á boltann, komst svo í gegn og skoraði laglegt mark. Markið jók enn á vaxandi sjálfstraust KA liðsins og stúkan naut þess í botn. Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og gleðin allsráðandi þegar liðin gengu inn í hálfleik.

Síðari hálfleikur náði svo litlu flugi, KA liðið spilaði af öryggi og svo virtist sem gestirnir úr Grafarvoginum hefðu gefist upp. Undir lok leiks þjörmuðu strákarnir allsvaðalega uppvið mark Fjölnismanna sem björguðu þrisvar á línu og komu á ótrúlegan hátt í veg fyrir að sannfærandi sigur KA yrði stærri.

Virkilega flott frammistaða og gríðarlega mikilvæg 3 stig í hús. Eftir flotta spilamennsku í undanförnum leikjum sem gaf aðeins 1 stig þá er glæsilegt að sjá liðið halda áfram að reyna og uppskera í kvöld. Það býr hellingur í þessu liði og nú höldum við áfram!

Nivea KA-maður leiksins: Ásgeir Sigurgeirsson (Það er auðvelt að elska Ásgeir, hleypur eins og brjálæðingur alla leiki, gefur sig 100% í öll einvígi og virðist alltaf skapa hættu. Gerði gott mark í dag og sýndi og sannaði að hann getur vel leikið fremstur í sóknarlínu KA-liðsins.)


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband